146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:30]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar mikið að geta komið og sagt ágætishluti um þetta enda er algert lykilatriði fyrir okkur að þessi fjármálaáætlun sé góð, það er mikilvægt fyrir alla landsmenn. En því miður höfum við orðið fyrir vonbrigðum enn einu sinni. Mig langar til að rekja þau vonbrigði örlítið.

Ef við lítum aðeins til framtíðar eins og sagt er í inngangi þingsályktunartillögunnar þá rammar þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar inn raunveruleika Íslands til ársins 2022, þó svo að hún verði auðvitað uppfærð á hverju ári hér eftir. Hún segir okkur hvernig framtíðin á að líta út samkvæmt núverandi ríkisstjórn. Árið 2022 eru börn sem fæddust í fyrra að hefja skólagöngu sína, nemendur sem hófu framhaldsskólanám í fyrra gætu verið að klára háskóla. Samfélagið eftir fimm ár mun verða um margt ólíkt því sem við þekkjum í dag. Fyrir fimm árum síðan stóð Occupy Wall Street hreyfingin á hátindi sínum með kröfu um frelsi og jöfnuð. Í dag er ár og dagur síðan stærstu mótmæli Íslandssögunnar voru haldin vegna spillingarmála þáverandi — og núverandi – forsætisráðherra. Fyrir fimm árum síðan sigraði gervigreind mannfólk í spurningaleiknum Jeopardy í fyrsta skipti. Í dag keyrir gervigreind bíla, þýðir milli tungumála á rauntíma og skipuleggur hluti sem við varla skiljum. Geta okkar til að spá fyrir um framtíðina er nánast engin, jafnvel þótt það sé bara um næstu fimm ár.

En við vitum ýmislegt. Við vitum að þekking mun verða verðmætari, að innviðir verða mikilvægari, að frelsi fólks og jöfnuður verða áfram hornsteinar samfélagsins. Í inngangskafla fjármálaáætlunarinnar er talað um að stjórnvöld beri ábyrgð á því að velja milli uppbyggingar og sparnaðar. Hér eru uppbygging og sparnaður sett fram sem einhvers konar andstæður, sem er fráleitt. Skynsamleg uppbygging er forsenda sparnaðar til framtíðar. En í fjármálastefnu er afar lítil uppbygging. Það er haldið áfram með ýmis verkefni sem kallað hefur verið eftir um árabil, svo sem nýjan Herjólf, nýjan Landspítala og Hús íslenskra fræða. Allt er þetta mjög gott. En þetta er ekki í samræmi við þá uppsöfnuðu þörf fyrir uppbyggingu sem hefur orðið til vegna aðgerða- og sinnuleysis undanfarin ár. Þessi skortur á uppbyggingu er nú þegar farinn að valda okkur skaða. Það verður ekki neinn sparnaður af þeirri nálgun að bíða með þetta til lengri tíma litið.

Einnig er talað um í inngangskafla fjármálaáætlunar að stjórnvöld beri ábyrgð á að velja á milli skattlagningar og frelsis. Þetta er einfaldlega fráleitt. Andstæðan við skattlagningu er skattleysi, ekki frelsi. Frelsi felur í sér ýmislegt en það að komast hjá skattlagningu er ekki eitt af því. Þetta ætti hæstv. forsætisráðherra að hafa lært fyrir ári síðan. Skattar geta einmitt stuðlað að frelsi, frelsi til náms, heilbrigðis, frelsi til að komast leiðar sinnar og ýmislegs fleira. Það er í besta falli einfeldningslegt að halda því fram að skattlagning og frelsi séu andstæður. Í rauninni er það algerlega út í hött.

Framtíðarsýnin sem birtist í þessari fjármálastefnu er ekki framtíðarsýn sem fyllir mig trausti. Hér er framtíðarsýnin sú að örlitlar úrbætur eigi að vera á nokkrum sviðum en meginhluti samfélagsins situr á hakanum. Innviðir eiga að grotna niður, menntunarstig þjóðarinnar á að fara minnkandi og engin uppbygging má eiga sér stað til að hvetja hagkerfið eða þjóðina áfram án þess að fyrst sé búið að sýna fram á það bæði í hagkerfinu og hjá þjóðinni að engrar hvatningar sé þörf, vegna þess að allt er bundið saman við aukningu á vergri landsframleiðslu.

Forseti. Á bls. 54 í þessu skjali segir að ekki sé spáð fyrir um breytingar á gengi íslensku krónunnar í áætluninni heldur gert ráð fyrir að gengið verði óbreytt allt tímabilið. Það er skiljanlegt að fólki finnist erfitt að spá fyrir um gengi íslensku krónunnar eins og staðan hefur verið en það að gera ráð fyrir að gengið verði óbreytt yfir tímabilið er fásinna. Tengslin milli gengis krónunnar og vergrar landsframleiðslu hafa verið mjög sterk undanfarin ár. Þar sem öll fjármálaáætlun byggir á vergri landsframleiðslu, að hún haldi áfram að aukast svo að engan niðurskurð þurfi, er algert lykilatriði að við höfum í fjármálaáætlun einhvers konar vikmörk, að einhver hækkun eða lækkun geti átt sér stað með hliðsjón af breytingum undanfarinna ára.

Núverandi gengi krónunnar er mjög nálægt því gengi sem krónan var á þegar hún var sterkust fyrir hrun. Framleiðsluspennan er svipuð og verðlagsleiðrétt erum við bara á brúninni. Aðgerðastig stjórnvalda er bara svipað. Það er gert ráð fyrir að nýta 105 milljarða kr. í niðurgreiðslu skulda á þessu ári sem er um 10% af öllum skuldum ríkissjóðs en ekki gert ráð fyrir að vaxtabyrði ríkissjóðs minnki verulega vegna þessa, sem er furðu lítil vaxtabyrðisminnkun miðað við hlutfall skulda. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það er verið að borga niður vaxtalaust lán til Seðlabankans, að mér skilst, sem einhverra hluta vegna liggur meira á að borga niður en hávaxtalán. Meiri hluti vaxta á lánum ríkissjóðs eru fastir. Þeir breytast ekki með vaxtabreytingum á markaði. Þetta gildir um 79% allra ríkisskulda. Þetta þýðir að jafnvel þótt vextir lækki eins og boðað hefur verið ítrekað að undanförnu, án þess reyndar að við höfum séð nokkrar efndir á því, mun vaxtabyrði ríkissjóðs ekkert endilega endurspegla það. Mér finnst það eitt vera algert forgangsmál ríkisstjórnarinnar í fjármálaáætlun að koma böndum á vaxtakostnað ríkissjóðs. En áætlunin hér gengur út frá því að lækka skuldir án þess að horfa mikið til vaxtakostnaðar, að hann minnki jú um samtals 10 milljarða yfir tímabilið, sem er ekki mjög mikið miðað við hvað það gæti verið.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 14% niðurskurði á húsnæðisstuðningi yfir tímabilið. Það er fyrst og fremst vegna þess að vaxtabætur eru ekki uppfærðar, að mér sýnist. Vaxtabætur eru langt frá því að vera fullkomið kerfi en þetta er það sem við höfum og ríkisstjórnin hefur ekki boðað neitt betra. Því væri þessi niðurskurður reiðarslag jafnvel þótt ekki væri um að ræða gríðarlega fasteignabólu, húsnæðisskort og gríðarhátt vaxtastig á fasteignalánum sem við upplifum í samfélaginu um þessar mundir. Þessi nálgun ríkisstjórnarinnar passar kannski fullkomlega við aðhaldsmarkmiðin en réttara væri að kalla þetta afturhaldsmarkmið. Tekjur ríkissjóðs lækka úr 42,3% í ár í 41,4% í lok tímabilsins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það skilur eftir svigrúm miðað við útgjaldaþakið í fjármálastefnunni upp á 0,1% sem er um 3 milljarðar á ári. Það þýðir að lækkunar er þörf, niðurskurðar er þörf til að geta uppfyllt skuldalækkunarregluna og afgangsviðmiðin. Þetta þýðir að ekki þarf nema örlitla verðbólgu umfram aukningu á vergri landsframleiðslu til að við séum komin í stöðu þar sem niðurskurður er nauðsynlegur samkvæmt fjármálastefnunni.

Ýmislegt er fullyrt um stóraukin útgjöld til menntamála sem er rugl. Það er talað um aukningu í málaflokknum umhverfisvernd sem er jú einhver í lok tímabilsins en á meiri hluta þess erum við að tala um lækkun. Sumt er frábært sem er talað um að gera, lögfesting NPA, alveg æðislegt. En í heildina er þetta ekki nógu gott.

Frú forseti. Lítum til framtíðar. Árið 2022 mun ný fjármálastefna verða að koma fram, þá til ársins 2027. Í þeirri fjármálastefnu mun þurfa að bregðast við algeru hruni innviða, lægra menntunarstigi, verri heilbrigðisþjónustu, stórkostlegum vandamálum í samgöngum og velferðarkerfi sem veitir tæplega velferð. Allt þetta hangir á því að langlengsta hagvaxtarskeið sögunnar á Íslandi haldi áfram út í hið óendanlega. Það þarf ekki nema lítið bakslag til að öll spilaborgin hrynji. Makríllinn gæti farið eða túristarnir, olíuverðið gæti hækkað eða álverðið lækkað. Það er ekkert þol innbyggt í kerfið sem þessi fjármálaáætlun lýsir fyrir minni háttar slysum í hagkerfinu.

Framtíðin er ekki björt. Hér verður engin viðreisn. Mér finnst eiginlega bara vegið frekar gróflega að sjálfstæði landsmanna. Þessi framtíðarsýn er ljót. Ég lýsi yfir mikilli samúð með því fólki sem mun kannski neyðast til að búa við hana.

Ég hefði svo sem getað farið í að lesa upp prósentur og ræða um tiltekin smáatriði í þessari stefnu. Ég býst við að félagi minn, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, muni gera það hér á eftir. En satt að segja er vandamálið ekki endilega falið í einstökum þáttum heldur stóru línunum. Það er engin góð framtíðarsýn hér. Við sjáum aftur dæmi þess að núverandi ríkisstjórn hefur ekki neina framtíðarsýn, ætlar sér ekki að búa landið undir þá framtíð sem koma mun hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég hef miklar áhyggjur af því að ef þetta verður niðurstaðan verði ekkert gott næstu árin.