146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það geti enginn sagt að þetta séu ekki góðar fréttir. Vandinn er sá að við erum að reyna að skilja hvað mun gerast í ríkisfjármálum næstu árin. Það er rosalega erfitt fyrir okkur sem erum á Alþingi að sjá fyrir okkur hvað mun gerast í ríkisfjármálum næstu árin þegar það er ekki einu sinni hægt að hafa fullan skilning á því hvað mun gerast í ríkisfjármálum næstu mínúturnar. Það að við séum að tala um fjármálaáætlun sem gengur út frá ákveðnum forsendum um niðurgreiðslu skulda, sem er bara hið besta mál, og að öllum forsendunum sé síðan hleypt í uppnám þegar við erum í fyrri umr. um hvort eigi að samþykkja þá fjármálaáætlun vekur ekki mikið traust hjá manni, ekki frekar en áætlunin sjálf eins og ég minntist á áðan. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað á að segja við þessum fréttum. Þetta eru góðar fréttir. Auðvitað eru góðar fréttir að við séum að borga niður skuldir. Ég geri ráð fyrir að það sé af þeim 105 milljörðum sem var gert ráð fyrir að færu til skuldaniðurgreiðslu á þessu ári sem þetta fer í. En það væri til eftirbreytni ef hæstv. fjármálaráðherra myndi temja sér að láta þingið hafa einhvers konar gögn sem væru lýsandi fyrir þann raunveruleika sem við munum búa við, frekar en að láta okkur vita af kaupum sem fara í gegn einhvern tíma þegar við erum að reyna að eiga skynsamlegar samræður um það sem er að gerast.