146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:53]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér koma fréttir í nánast hverju einasta andsvari. Nú er talað um að ekki standi til að koma á myntráði. Ég man ekki betur en að stofnuð hafi verið nefnd um að skoða þann möguleika núna ekki fyrir löngu síðan. Ja, ég veit ekki. Það eru alls konar fréttir að koma hér.

En svo ég svari hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, jú, auðvitað myndi það auka flækjustigið að setja fram einhverjar spár. En ef við horfum á þetta ágæta plagg, eða ekki ágæta, eftir því hvernig (Gripið fram í: Frábæra.) maður lítur á það, þá erum við með á bls. 13 þjóðhagsspá. Hún er ein síða. Svo erum við með efnahagshorfur sem hljóða upp á örfáar síður. Þegar við horfum á flækjustigið sem þetta skjal lýsir, sem er allur rekstur íslenska ríkisins til fimm ára, held ég að við gætum alveg leyft okkur að vera með þjóðhagsspá sem hefur aðeins meiri vigt en eina blaðsíðu. Það myndi alla vega ekki skaða mig að þurfa að lesa tíu blaðsíður í viðbót þar sem yrði greint frá því á hvaða hátt þær forsendur sem er gengið út frá gætu vikið frá bestu hugsanlegu spá.

Nú gæti maður einmitt gengið út frá því að taka bara tvær sviðsmyndir, um 10% hækkun og 10% lækkun, og lýst síðan með einhverju móti hvaða aðgerða ríkisstjórnin myndi grípa til miðað við að það væri nokkur prósenta frávik í aðra hvora áttina. Þá værum við alla vega komin með forsendur til að meta þá töluverðu flækju og óvissu sem þetta lýsir. Því að auðvitað verður maður að byggja megnið af svona áætlun út frá föstum. En fastarnir eru engir fastar og við verðum að skilja að það er einhver fjölbreytileiki í raunveruleikanum.