146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði um mikið svigrúm. Í fjármálaáætluninni segir hins vegar að ef hagvöxtur stenst ekki sé afar erfitt að ná þeim markmiðum sem hún segir til um. Ég skil því ekki alveg hvaða mikla svigrúm er verið að tala um.

Nú þarf ekki mikið að gerast, t.d. bara stöðnun eða lítilleg fækkun ferðamanna, þó að við höfum ekki fengið greiningu á því hversu viðkvæm sú grein er í þeim hagtölum sem við báðum um.

Svo er það varðandi lækkun skulda sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti okkur áðan. Ráðherra segir að innstæða í Seðlabanka hafi verið notuð til að greiða niður lánið. Þá giska ég á að það hafi verið eitthvað af gjaldeyrisvaraforðanum eða eitthvað því um líkt. Einhvers staðar að koma þessir 100 milljarðar. Einhvers staðar eru þeir hluti af því hagkerfi sem við erum með og áttu að nýtast í eitthvað annað, báru vexti eða eitthvað slíkt. Þetta lán var greitt niður frekar en eitthvað annað samkvæmt áætlun.

Nú er áætlunin ekki samþykkt enn þá. Það átti að nota arð af bönkunum til að greiða niður lánin. Þá veltir maður fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á afganginn af kerfinu og þær efnahagsforsendur sem öll stefnan byggir á. Það væri fróðlegt að vita hvort það hefur áhrif á fjárheimildir sem ráðherra eða stjórnin hefur í öðrum málefnasviðum.