146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:25]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrr í þessari viku lauk umræðu um fjármálastefnu og nú fjöllum við um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Eins og fram hefur komið erum við nú að máta okkur við nýtt verklag í kjölfar þess að Alþingi samþykkti ný lög um opinber fjármál. Þessum nýju lögum fylgir ekki bara nýtt vinnulag heldur einnig ný hugsun. Allir opinberir aðilar eru nú að vinna innan sama ramma til að ná ákveðnum markmiðum út frá hugmyndafræði stefnumótunar og langtímamarkmiða þótt sumum kunni að finnast fimm ár heldur skammur tími.

Hlutverk fjárlaganefndar breytist þar af leiðandi umtalsvert og sömuleiðis hlutverk annarra fastanefnda Alþingis sem þurfa nú á fyrri stigum að koma inn í umræðuna varðandi stefnumótun í þeim málaflokkum sem að þeim snúa. Breytingar eru alltaf erfiðar en á sama tíma fela þær í sér spennandi tækifæri. Ég tel að þetta nýja kerfi verði til bóta að því gefnu að allir hlutar kerfisins vinni nú saman að sameiginlegum markmiðum.

Eitt helsta stefnumið umræddrar fjármálaáætlunar er aukið aðhald ríkissjóðs til að vega upp á móti þenslu. Síðan er ætlunin að draga úr aðhaldi þegar á líður samhliða minnkandi hagvexti en forsendur gera ráð fyrir að hagvöxtur dragist saman á tímabilinu og verði á bilinu 2,5–3% árin 2018–2022. Hvað heildarskuldir ríkissjóðs varðar gerir áætlunin ráð fyrir að þær verði komnar undir 28% af vergri landsframleiðslu í árslok 2018 og verði ekki hærri en 21% af landsframleiðslu í árslok 2022. Þessar tölur miða við nettóskuldir, þ.e. án lífeyrisskuldbindinga og viðskiptaskulda og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum. Afkomumarkmiðin ganga út frá því að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs verði aukinn úr 1% af vergri landsframleiðslu miðað við fjárlög 2017 í 1,5% árið 2018. Eftir það lækki árlegur afgangur af rekstri A-hluta ríkissjóðs um 0,1 prósentustig á ári og verði 1,1% af vergri landsframleiðslu í lok tímabilsins.

Stöldrum hér við. Það er nauðsynlegt að greiða niður skuldir. Við það skapast aukið svigrúm í ríkisfjármálum, betri lánakjör og síðast en ekki síst meiri stöðugleiki til lengri tíma litið. Ríkið verður þar af leiðandi betur búið til að bregðast við áföllum ef til þeirra kemur. Allt eru þetta afar mikilvægir hlutir. Í ljósi þess fagna ég sérstaklega nýjum fréttum af því að svokölluð dollaralán — er það ekki rétt? — hafi verið greidd niður í dag. Það eru miklar og góðar fréttir og væri áhugavert að heyra fjármálaráðherra útskýra síðar hvað það hefur mögulega í för með sér fyrir okkur við þessa vinnu.

Við Framsóknarmenn teljum að í ljósi stöðunnar sé rétt að hægja eilítið á niðurgreiðslu skulda þar sem uppbygging nauðsynlegra innviða samfélagsins er orðin mjög brýn og þar nefni ég sérstaklega samgöngumannvirki, heilbrigðisþjónustu og menntastofnanir á öllum stigum. Við hefðum einnig viljað skoða til hlítar álagningu nýrra skatta, svo sem komugjalds og lýðheilsuskatts, og mögulega frekari breytingar á skattkerfinu til samræmis við niðurstöðu samráðshóps um aukna hagsæld. En hægri stjórnin hefur auðvitað ekki áhuga á því heldur lækkar almennt skattþrep á sama tíma og talað er um að tempra þensluna. Skrýtið, svo ekki sé meira sagt.

Svo er ekki nema eðlilegt að maður spyrji sig þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarflokkanna og stefnur þeirra fyrir kosningar eru skoðaðar og bornar saman við fjármálaáætlun hvort menn séu að standa við stóru orðin og geti bæði hafið sókn í heilbrigðismálum og samgöngumálum á sama tíma og þeir ætla sér að auka aðhald í ríkisfjármálum. Svo er ekki. Dæmið gengur alls ekki upp.

Hæstv. forseti. Áður en lengra er haldið vil ég leggja sérstaka áherslu á að ég er hrifin af göfugum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Í kynningu á fjármálaáætlun á heimasíðu fjármálaráðuneytisins stendur t.d., með leyfi forseta:

„Á næstu árum verður sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, m.a. með stórauknum útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála.“

Eins og ég segi eru þetta falleg orð á blaði en því miður ná þessar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar ekki miklu lengra þegar rýnt er í tölurnar.

Tökum heilbrigðismálin sem dæmi. Þar er gert ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda fyrir þann málaflokk á tímabilinu verði 22% og 13% til velferðarmála. Hljómar vel en útgjaldaaukningin til heilbrigðismála skýrist fyrst og fremst af risavöxnum framkvæmdum er tengjast byggingu nýs Landspítala. Sú framkvæmd er upp á tugi milljarða. Ég get ekki séð að aukningin skili sér t.d. til heilsugæslunnar og sjúkrastofnana á landsbyggðinni, a.m.k. ekki í nægilega miklum mæli, og það eru mér mikil vonbrigði.

Það er vissulega gott að við skulum sjá fram á að nýr Landspítali rísi á næstu misserum þótt ég hefði heldur viljað sjá hann rísa annars staðar en við Hringbraut. Það er ekki gott að ríkisstjórnin ætli ekki að hefja þá stórsókn við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem lofað var.

Ég gagnrýni einnig að í ljósi þess að menn séu orðnir meðvitaðir um gildi stefnumótunar, greininga og áætlana skuli þessar áætlanir um ríkisfjármál og heilbrigðiskerfið ekki byggja á heildstæðri heilbrigðisáætlun. Við Framsóknarmenn höfum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis. Ég vona að hún verði afgreidd sem fyrst á þingi og að í framtíðinni verði fjármálaáætlanir ríkisins byggðar á slíkum áætlunum sem verði einnig endurmetnar reglulega. Þannig náum við raunverulegum árangri hvað varðar ábyrga fjármálastjórn og að bæta gæði opinberrar þjónustu á sama tíma.

Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála aukast á tímabilinu. Sú aukning skýrist líkt og á málefnasviði heilbrigðismála fyrst og fremst af risavöxnum fjárfestingum eins og Dýrafjarðargöngum og nýjum Herjólfi. Framlög hækka í raun um 5 milljarða á föstu verðlagi sem er óboðlegt í ljósi þess að við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom í ljós að 12–15 milljarða vantaði til að fjármagna samþykkta samgönguáætlun.

Hið sama gildir auðvitað um menntakerfið okkar. Aukningu til háskóla má fyrst og fremst skýra með byggingu Húss íslenskra fræða. Áætlunin gerir ekki ráð fyrir að mæta þeirri staðreynd að háskólastigið hefur verið undirfjármagnað um langa hríð. Framlög til framhaldsskóla dragast saman þrátt fyrir fögur fyrirheit um að stytting náms ætti ekki að leiða til minna fjármagns heldur ætti að nýta þá fjármuni sem sparast til eflingar framhaldsskólastigsins. Kennarasamband Íslands gagnrýnir þetta sem og stjórn Félags framhaldsskólakennara. Í fréttatilkynningu frá Kennarasambandinu segir, með leyfi forseta:

„Loforð um að allur fjárhagslegur ávinningur af styttingunni yrði ekki tekinn út úr rekstri framhaldsskólanna heldur nýttur til þess að auka þjónustu við nemendur hafa nú verið svikin.“

Hæstv. forseti. Lítum nú aðeins yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna og hvað þar segir um menntamál, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld.

Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.

Huga þarf að þörfum grunn- og framhaldsskóla svo leggja megi frekari áherslu á kennslu í skapandi greinum, forritun, hönnun og verknámi, samhliða átaki í hefðbundnum greinum.“

Á bls. 6 í þingskjali um fjármálaáætlun er tafla sem sýnir útgjaldaramma málefnasviða. Framhaldsskólastigið er nr. 20 á listanum og þar sést að útgjöld lækka um tæpan milljarð á tímabilinu.

Rauði þráðurinn í stjórnarsáttmálanum er sá að byggja þurfi undir skapandi greinar og nýsköpun ef við ætlum okkur að vera samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum í framtíðinni.

Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar kemur fram að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum til að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafi ekki náð tilætluðum árangri. Að mati Ríkisendurskoðunar hljóta ómarkviss stefnumörkun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda að eiga umtalsverðan þátt í því að starfsnám stendur enn höllum fæti. Ný lög um framhaldsskólana frá 2008 áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Frá 2008 hefur nemendum verk- og starfsnámsbrauta hins vegar fækkað um 7% og brautskráningum þeirra fækkað um 18%. Frá því að lögin tóku gildi hafa stjórnvöld unnið að ýmsum áætlunum um aðgerðir til úrbóta án þess að þeim hafi verið hrundið í framkvæmd með skipulegum hætti eins og segir í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun.

Fjármálaáætlunin gefur manni ekki góða von um að ríkisstjórnin ætli sér að gera betur hvað varðar starfs- og verknám á framhaldsskólastigi. Það liggur fyrir. Fjármálaáætlunin lýsir því alls ekki mikilli framsýni hvað menntamálin varðar. Ég er vonsvikin. Ég bjóst við meiru af því góða fólki sem nú situr í ríkisstjórn. Framsækninni er ekki fyrir að fara og það liggur fyrir að við völd er nú ríkisstjórn svikinna loforða og brostinna vona. Það er ekki gott.

Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er enn í salnum. Ef hann hefur tíma væri ágætt að heyra hann greina örlítið betur frá þeim áhrifum sem þessi niðurgreiðsla lánsins hefur á gerð fjármálaáætlunar og þá vinnu sem fram undan er við hana.