146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það gladdi mig að heyra að hv. þingmaður bindur miklar vonir við þessa ríkisstjórn. Ég er sannfærður um að í lok kjörtímabilsins verða þær vonir svo sannarlega ekki brostnar heldur uppfylltar og vel það. Það er ánægjulegt að vita að miklar væntingar eru bundnar við þessa ríkisstjórn, sem eðlilegt er.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvaða áhrif þessi niðurgreiðsla á vöxtum hefur er kannski rétt að skýra það að að hluta til er náttúrlega um að ræða vaxtagreiðslu vegna ársins í ár og svo þurfum við að borga fyrir fram sýnist mér vexti upp á um 8 milljarða kr. Það felst í álaginu. Sem þýðir að við fáum engu að síður töluvert svigrúm í framtíðinni. Það lækkar sem sagt vaxtabyrðina og auðveldar þannig að vera með afgang. Hvaða áhrif þetta hefur nákvæmlega verð ég nú bara að játa, annað en það að við sjáum að rýmið eykst almennt, að þá í sjálfu sér breytir það ekki neinu í sambandi við frumjöfnuðinn, þ.e. að ef við lítum fram hjá greiðslu skulda sem margir umsagnaraðilar töluðu um að við ættum að horfa á öðru fremur. Ég held að þetta verði eitt af því sem við munum eiga gagnlegt samtal um, þ.e. fjármálaráðherra og hv. fjárlaganefnd.