146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þrátt fyrir það sem hér kom fram verð ég að taka undir að það er eðlilegt að fjármálaráðherra sitji undir umræðunum. Hann gerði það í kringum stefnuna, sem er vel, enda finnst mér að ráðherra eigi að fylgja sínum stóru málum eftir. Það er ekki spurning. Hann hefur tekið þátt í umræðum og farið í andsvör við okkur stjórnarandstöðuþingmenn sem mér þykir af hinu góða.

Ég verð að taka undir að þegar formaður og þingflokksformaður tveggja flokka eru að fara að tala er eðlilegt að við gerum hlé. Ef ekki er um langan tíma að ræða er sjálfsagt að við fáum okkur kaffisopa í korter eða eitthvað og hinkrum. Skárra væri það nú ef ekki væri hægt að gera það. Það hliðrar ekki dagskránni svo mikið til.

Það er mikilvægt að allar raddir nái eyrum fjármálaráðherra sjálfs, ekki bara aðstoðarmanna eða starfsfólks úr fjármálaráðuneytinu sem hér er í hliðarsal. Það skiptir máli að ráðherra geti brugðist beint við því sem hér er um spurt. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir að báðar þær sem ætla að tala á eftir séu með beinar spurningar til ráðherrans.