146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg ólíðandi að hæstv. fjármálaráðherra sjái sér ekki fært að sitja undir þessum umræðum. Við í minni hlutanum erum búin að semja af okkur ræðutíma þannig að það er alveg ótrúlegt að sjá þessa vanvirðingu, ef ég á að segja eins og er. Ef þetta snýst um 40 mínútur eða klukkutíma getum við alveg tekið kvöldmatarhlé núna. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Forseti hefur nú þegar fengið, eftir mjög góðar samræður við þingflokksformenn minni hlutans og meiri hlutans, leyfi til kvöldfundar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við gerum hlé á þessum fundi og bíðum eftir að hæstv. fjármálaráðherra komi í hús, einfaldlega vegna þess að við sömdum af okkur ræðutímann til að geta átt orðastað við hann, í hans nærveru, ekki til þess að geta talað út í svo til tóman salinn eða fyrir daufum eyrum hæstv. ráðherra.