146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að taka undir með, heyrist mér, öllum öðrum sem hér hafa talað um að auðvitað skiljum við að fólk geti haft eitthvað annað að gera klukkan korter yfir sex á miðvikudagssíðdegi en að sitja í þingsal. Ég held að fæst okkar hafi endilega reiknað með að vera að ræða ríkisfjármálaáætlun akkúrat þessa stundina en við bara færðum þau plön til þegar í ljós kom að hér yrði umræða.

Eitthvað fékk ráðherrann væntanlega að vera með í ráðum þegar raðað var á dagskrá. Þess vegna hefði verið sjálfsagt af forseta að taka tillit til forfalla hans.

Það setur samt að mér dálítinn ugg. Við erum, eins og fram hefur komið, búin að semja af okkur ræðutíma. Fyrirhugað er að gera það sama á morgun þegar við höldum áfram að ræða þessi mál. Megum við þá eiga von á að ráðherrar verði úti um hvippinn og hvappinn frekar en að standa í þeim skoðanaskiptum sem við semjum um við ríkisstjórnina að eiga um þetta mál?