146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um heilbrigðis- og menntakerfið. Annars vegar var talað um uppbyggingu og kannski viðhald húsnæðis sem ákveðin aukafjárframlög í heilbrigðiskerfið. Þá langar mig að spyrja hversu miklu sé verið að bæta við í heilbrigðiskerfið ef við drögum frá þá uppbyggingu. Það væri held ég hjálplegt fyrir umræðuna að vita hversu mikið heilbrigðisþjónustan sjálf, utan þess stoðkerfis sem þarf í húsnæði og viðhald, kemur til með að fá.

Svo varðandi menntamálin. Jú, þetta er kannski aðeins meira en á síðasta kjörtímabili. Háskólinn fær 6,7% á öllu tímabilinu miðað við fjárlög 2017. Áætlun 2022 er 6,7% hærri en fjárlög 2017. Það er ekki mikil hækkun á fimm árum.

Þar kemur líka til, eins og hv. þingmaður kom inn á, rannsóknir og nýsköpun. Það er hækkun um 3,4% á fimm árum frá 2017. Mig langar að spyrja hvernig það sé hækkun til málaflokkanna þegar hagvaxtartölur eru á bilinu 14–19%, eftir því frá hvaða ári maður skoðar það.