146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun næstu fimm ára. Eins frábært og það er að horfa fram á veginn gefur þetta okkur tækifæri til að skoða hvernig heimurinn verður í lok áætlunarinnar, hvernig árið 2022 lítur út.

Ef þjóðhagsspá stenst mun uppsafnaður hagvöxtur vera 19,4% frá því í ár, ef 2017 er talið með. Áætlunin sem sett er fram hér byggir mikið á þessum hagvexti en í stefnunni segir, með leyfi forseta:

„Verði vöxtur þjóðarútgjalda minni en spáin, sem hér liggur til grundvallar, segir til um er hætt við því að raunvöxtur tekna ríkisins verði einnig minni en ella og erfiðara gæti þá reynst að fylgja áformum eftir um batnandi afkomu ríkissjóðs.“

Þetta er algert lykilatriði í þessari fjármálaáætlun; hún segir það mjög skýrt og skilmerkilega og greinir þar frá sjálf.

Fjármálaáætlun byggir á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem er enn ósamþykkt, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að útgjöld hins opinbera, að frátöldum vaxtagjöldum, vaxi sömuleiðis að miklu leyti í takt við nafnvöxt VLF …“.

Ef við kíkjum aðeins yfir þær tölur sem fjármálaáætlunin gefur okkur er munurinn á 2017 og 2022 12,1%. Ef fjárlögin yrðu eftir áætlun 2022 yrðu heildarframlög 12,1% hærri en í ár; vöxtur hins opinbera, útgjalda ríkisins: 12,1%. Verg landsframleiðsla er á sama tíma 19,4%. Samkvæmt fjármálastefnunni passar það ekki alveg saman.

Jöfn dreifing milli málefnasviða myndi þýða að öll málefnasvið yrðu bara hækkuð um 19,4% eða fylgdu vergri landsframleiðslu. En við röðum málum öðruvísi, við forgangsröðum. Þá er ágætt að fara yfir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þar er mest lagt fram, fyrir utan almennan varasjóð og sérstakar fjárráðstafanir, til lyfja og lækningavara, eða hækkað um 53,8%. Einnig er vinnumarkaður og atvinnuleysi hækkað um 30%, örorka og málefni fatlaðs fólks um 26,5%, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 27,5%, sjúkrahúsþjónusta 19,8%, ferðaþjónusta 23,3% og nokkrir aðrir liðir. Það er áhugavert að þegar lagt er aukalega í nokkur málefnasvið er dregið úr í öðrum. Þar á meðal eru til dæmis rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, sveitarfélög og byggðamál, landbúnaður, umhverfismál, framhaldsskólastig, háskólastig, málefni aldraðra og húsnæðisstuðningur. Öll þessi málefnasvið eru lækkuð með tilliti til hagvaxtar og sum meira að segja miðað við 2017, t.d. er húsnæðisstuðningur árið 2022 14% lægri en 2017.

Vandamálið er síðan að verðbólguspá jafnast á við spá um hagvöxt. Til að ná væntum útgjaldamarkmiðum þarf einhvers staðar að ná í pening umfram þann hagvöxt því að verðbólgan étur hagvöxtinn bara upp. Alla raunaukningu til málefnasviðanna verður að fjármagna með lækkun vaxta. Þeir duga skammt upp í þessa áætlun, ef svo fer fram sem horfir.

Ég vil skipta aðeins um gír og tala um eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmd fjármála. Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um að fjármálastefna skuli yfirfarin af fjármálaráði. En nú er það svo merkilegt að það níu blaðsíðna plagg sem fær sérstaka meðferð sérfræðinganefndar er fjármálastefnan, en fjármálaáætlunin, upp á rúmar 360 blaðsíður, fær ekki sérstaka meðhöndlun eins og fjármálaráði er gert með fjármálastefnuna. Helsti umsagnaraðili þingsins, sá sem hefur allar forsendur og upplýsingar, er sá aðili sem þingið á að hafa eftirlit með, þ.e. fjármálaráðuneytið. Það hefur allar upplýsingar um málið og matar þingið og eftirlitsstofnanir þess á upplýsingum sem þingið á síðan að nota til að hafa eftirlit með þeim framkvæmdaraðila. Það er mjög undarlegt.

En það sem er stórmerkilegt er að samkvæmt lögum um opinber fjármál á að útlista stefnu um skatta og eignir hins opinbera í fjármálastefnunni. Það eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir fjármálaráð og umsögn þess. Þær upplýsingar er ekki að finna í fjármálastefnunni en birtast nú í fjármálaáætluninni. Það er aðeins of seint fyrir fjármálaráð og umsögn þess en samkvæmt lögum um opinber fjármál er umsögn fjármálaráðs algert lykilatriði í því gæðaeftirliti sem þingið á að sinna. Því var gefinn allt of stuttur tími og ónægar upplýsingar lágu fyrir. Miðað við það sem kemur fram í fjármálaáætlun vantaði ýmislegt í stefnuna, og svo umsögn fjármálaráðs. Þá get ég rétt ímyndað mér hvað ráðið hefði sagt um skattstefnuna miðað við til dæmis sjálfvirka sveiflujöfnun í hagkerfinu.

Nú var eitt helsta kosningamálið, nema kannski Sjálfstæðisflokksins, endurskipulagning í auðlindamálum, sérstaklega vegna auðsins í hafinu. En í þessari fjármálaáætlun er ekkert að finna um það kosningamál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þá er fyrirhugaðri endurskoðun á gjaldtöku fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda hafsins ætlað að tryggja aukna sátt um stjórnkerfi sjávarútvegs.“

Sjálfstæðisflokkurinn vann. Allir aðrir töpuðu. Allir aðrir flokkar. Landsmenn.

Ekki er gert ráð fyrir kerfisbreytingum í meðferð á auðlindum hafsins í þessari fjármálaáætlun. Ekki er heldur gert ráð fyrir slíkum breytingum í fjármálastefnunni. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að niðurstaðan verði aukin sátt. Við vitum öll hvað það orðalag þýðir í orðabók Sjálfstæðisflokksins. Viðreisn og Björt framtíð töpuðu. Allir aðrir töpuðu.

En hvað höfum við þá hér í höndunum? Við höfum fjármálaáætlun um lækkun skulda og lítið eitt annað; niðurgreiðslu skulda með arðgreiðslum úr bönkunum og áframhaldandi aðhald. Ég verð að spyrja mig hvort þeir flokkar sem leggja fram þessa áætlun hefðu treyst sér til að fara í kosningar með áætlunina. Í alvöru: Hvernig stendur þetta undir kosningaloforðum, eða, í tilfelli Bjartrar framtíðar, kosningaáherslum? Hvernig uppfyllir þetta orðin í stjórnarsáttmálanum? Er þessi stöðnun forgangsmál í heilbrigðisþjónustu? Er niðurskurður efling í menntakerfinu? Er stöðnun síðan aukinn kraftur í samgöngumálum? Þetta er eitthvert „Newspeak“ eða nýmæli, frú forseti.

Eins og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar býr þessi áætlun í raun til það svigrúm sem þyrfti til að fara í uppbyggingu og er það heiðarleiki sem hefði verið vel þeginn fyrir kosningar. Möguleikinn sem við höfum í uppsveiflu í hagkerfinu er að auka tekjur, meira að segja án þess að hækka almenna skatta, til að ráðast í þessa nauðsynlegu uppbyggingu og jafnvel safna í sarpinn, t.d. með aðgerðum til að lækka vaxtakostnað. Raunveruleikinn er að stefnt er að skattalækkun í hagvexti. Umsagnaraðilar fjármálastefnunnar vöruðu við slíku. Í uppsveiflu á að hækka skatta og í niðursveiflu lækka þá. Það er hin svokallaða sjálfvirka sveiflujöfnun. Það getur nefnilega hæglega verið mun dýrara að tefja uppbyggingu eða viðhald en sparast með því að nota sömu upphæð í uppbyggingu innviða. Í einhverjum tilvikum er hægt að spara meira með því að byggja upp en með því að borga niður skuldir í einhverjum tilvikum. Erfiðar aðstæður í þekkingarsamfélaginu geta valdið spekileka sem getur tekið mörg ár að vinna upp aftur. Samgöngukerfi í niðurníðslu getur valdið miklum skaða, það getur mælst í mannslífum.

Og að lokum: Heilbrigðiskerfið, hið svokallaða forgangsmál ríkisstjórnarinnar, er byggt á baráttu Pírata og Samfylkingar og Vinstri grænna í fjárlagagerð í desember síðastliðinn. Sú barátta skilaði Landspítalanum og heilsugæslunni skuldlausum til núverandi ríkisstjórnar. Hið svokallaða forgangsmál er lítið annað en uppbygging sem var löngu búið að ákveða og skuldbinda og óbreytt ástand að auki.

Nú veit ég að hæstv. fjármálaráðherra er heiðarlegur maður. Mér þætti vænt um að fá að vita hvort þessi fjármálaáætlun stenst þær væntingar sem flokkur hans gerði sér fyrir kosningar. Ég hefði einnig áhuga á að heyra formann Bjartrar framtíðar útskýra hvernig þessi áætlun nær kosningaáherslum þess flokks. Ég fæ kannski að heyra það í framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra á morgun.

En kæru Íslendingar. Næstu fimm árin verður óbreytt ástand eða niðurskurður í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngumálum, velferðarmálum og svo mætti áfram telja. Ef við komumst í gegnum næstu fimm árin án þess að verða fyrir efnahagsniðursveiflu verðum við í ágætismálum. Spurningin er bara þessi: Var það það sem þú valdir með atkvæði þínu í október síðastliðnum?