146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vil nefna nokkur atriði sem hann kom inn á. Hann benti m.a. réttilega á að húsnæðisliður lækkar á tímabilinu. Skýringin á því er sú að ríkið veitir sérstakt framlag, 3 milljarða króna, til uppbyggingar 2.300 íbúða í samvinnu við ASÍ. Við gerum það í ár og næsta ár og þeirri áætlun lýkur árið 2019. Það er skýringin á því. Ekki er neitt verið að draga úr á öðrum sviðum. Þessu verkefni lýkur bara.

Varðandi upplýsingar um skatta og eignir er rétt að upplýsa að þegar horft er á heildina yfir tímabilið er í raun og veru ekki um skattbreytingar að ræða en það er skattatilfærsla, eins og réttilega hefur verið bent á, þ.e. verið er að breikka hið almenna þrep og fækka undanþágum.

Ég held að sé afar mikilvægt að hafa í huga þá nefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er nú að skipa um sátt í sjávarútvegi. Ég tel engar sérstakar líkur á því að ekki verði sátt um að breyta kerfinu þannig að það verði markaðskerfi í stað þess kerfis sem við höfum nú. Það er afar mikilvægt. Ég hygg að bæði flestir sem hér sitja á Alþingi og þeir sem starfa í greininni átti sig á því.

Ég vil að lokum geta þess að við hyggjumst líka auka skatttekjur með auknu eftirliti og baráttu við svarta hagkerfið, sem ég hef sett sem forgangsmál í mínu ráðuneyti.