146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili nú ekki svartsýni hv. þingmanns. Ég held að ágætar líkur séu á að við getum náð sátt um ýmis mál hér í þinginu þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir að þá þurfum við að breyta vinnubrögðum og kannski aðallega hugarfari okkar um ýmislegt og byrja störfin með það í huga að við ætlum að verða sammála í lokin og ekki útiloka fyrir fram að við getum náð málamiðlunum. Það er oftast þannig að ef menn ætla að ná sátt nær ekki annar fram öllu sínu heldur hafa báðir eitthvað til síns máls.

Ég er bjartsýnn á að sáttanefnd hæstv. sjávarútvegsráðherra muni bera nafn með rentu og að við munum sjá hér réttlátara kerfi sem bæði sjómenn, útvegsmenn og það sem skiptir mestu máli almenningur allur verði ánægður með.