146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í síðustu kosningum var hægri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks felld með afgerandi hætti og það þrátt fyrir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu. Af hverju gerðist það? Jú, fólki rann m.a. til rifja að ekki var nógu vel hlúð að grunnstoðum á uppgangstímum. Gæðum var ekki nógu réttlátt skipt og ekki nógu vel hlúð að þeim sem lakast standa. Þrátt fyrir allar okkar auðlindir og ótal möguleika höfum við ekki nýtt tækifæri til að standa jafnfætis nágrönnum okkar á Norðurlöndum.

Eftir loforðaflaum fyrir kosningar biðu því margir spenntir eftir þessu plaggi en því miður, það er vonbrigði. Allt of lítil innspýting er í vanfjármagnað heilbrigðiskerfi og áfram verðum við hálfdrættingar á við Norðurlöndin þegar kemur að framlögum á hvern háskólanema. Þá mun lítið fé renna til samgöngumála og það lítið að innviðir munu áfram grotna niður. Það eru engin fyrirheit um að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa en í dag étur síhækkandi húsnæðiskostnaður upp allan ávinning almennings af betra efnahagsástandi.

Ríkisstjórninni tekst meira að segja að gera vonda brauðmolakenningu enn verri. Brauðmolarnir munu nú falla af borði ungs fólks á fasteignamarkaði til stóreignafólks sem hagnast á sífellt hærra fasteignaverði. Ójöfnuður mun aukast á sama tíma og hver rannsóknin eftir aðra frá alþjóðastofnunum sýnir að aukinn jöfnuður leiðir til meiri hagvaxtar og meiri heildarhamingju.

Fjármálaráðherra talar einna mest um aðgerðir til að lækka gengið sem mun draga úr kaupmætti venjulegs fólks, allt í nafni stöðugleika. Hvert er svo framlag ríkisstjórnarinnar til stöðugleikans? Jú, skattalækkanir. Það er fráleit forgangsröðun að lækka virðisaukaskatt og hvetja til einkaneyslu á þenslutíma. Betra hefði verið að nýta þá 13 milljarða sem glatast úr ríkissjóði til að lækka tryggingagjald strax sem leggst þyngst á lítil og meðalstór fyrirtæki, þekkingargreinar sem byggja á hugviti. Þekkingin spyr nefnilega ekki um landamæri heldur um starfsumhverfi og stöðugleika. Þarna birtist því fráleit forgangsröðun.

Þá má ekki gleyma þeim afleitu aðstæðum sem slíkum fyrirtækjum er boðið upp á með sveiflandi örmynt. Sem minnir reyndar á helsta heimanmund ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar, rifrildi hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir opnum tjöldum um peninga og gjaldmiðlastefnu. Ekki er það nú til að auka trúverðugleika.

Ég hef áhyggjur af því að nú verði sömu mistökin og fyrir hrun endurtekin. Skattalækkanir á þenslutímum, einkavæðing banka á kjörtímabili í blindri trú á frjálshyggjuna án þess að stefnan sé skýr og að dregið verði úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Hvenær munu fréttir af skipbroti nýfrjálshyggjunnar berast upp í ráðuneyti?

Stórkostlegar yfirlýsingar stjórnarliðsins um að fram undan sé mikil uppbygging heilbrigðis- og velferðarkerfisins hafa á fyrstu dögum verið hraktar af stjórnarandstöðunni, forstöðumönnum og almenningi. Fólk lætur ekki hafa sig að fífli endalaust. Rektor Háskóla Íslands hefur stigið fram og sagt fjárframlög næstu ára valda miklum vonbrigðum og ekki samræmast loforðum sem gefin voru fyrir kosningar. Á næstu árum mætum við stærstu samfélagsbreytingum frá iðnbyltingu 19. aldar. Öflugt menntakerfi verður afgerandi um það hvort við Íslendingar getum tekist sómasamlega á við þær. Þessi skammsýni er því ekki í boði. Menntun er lykill að vel launuðum störfum og öflugu atvinnulífi og heilt yfir að farsælli framtíð fyrir Íslendinga.

Við verðum að hugsa lengra fram í tímann. Það felst enginn sparnaður í að ráðast ekki í uppbyggingu á brothættri almannaþjónustu eins og haldið er fram í áætluninni á bls. 12. Það birtist því miður engin framsýni í þessari áætlun. Hér birtist gamaldags hægri stefna sniðin að sérhagsmunum og hætt við að áfram verði því ákall frumframleiðslugreinanna um sértækan stuðning, inngrip í gengi, eins og hefur verið raunar alla 20. öldina.

Áttar hæstv. fjármálaráðherra sig ekki á þeirri gríðarlegu samfélagsbyltingu sem bíður handan hornsins? Í fyrsta lagi þurfum við meiri pening í menntakerfið þannig að það geti greitt okkur leið inn í framtíðina. Í öðru lagi þurfum við meira fjármagn til heilbrigðismála sem gerir okkur fært að sækja nauðsynlega þjónustu óháð efnahag. Í þriðja lagi þurfum við fé til vegamála til að takast á við sívaxandi umferð, auka öryggi og jafnvel forða innviðum frá því að drabbast niður. Og í fjórða lagi þurfum við stórátak til að tryggja félagslegan stöðugleika og mæta þeim sem minnst bera úr býtum í samfélaginu. Það er hinn raunverulegi sparnaður, hæstv. ráðherra, en krefst um leið uppbyggingar.

Við heyrum sífellt sögur af allt of miklum skerðingum í almannatryggingakerfinu. Öryrkjar og eldri borgarar mega ekki hafa tekjur án þess að bætur skerðist. Gert er ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við prósentuhækkanir á almennum vinnumarkaði en það þýðir með öðrum orðum að bætur munu hækka minna en lágmarkslaun og staða lífeyrisþega versnar.

Það þarf einfaldlega að setja meira fjármagn í almannatryggingar. Allir flokkar tala á hátíðisdögum um að börn eigi ekki að líða fyrir fjárhagsstöðu foreldra sinna. Samt búa yfir sex þúsund börn við skort á Íslandi. Engir viðbótarfjármunir eru þó veittir í útgreiðslu barnabóta. Engin áform eru um að lengja fæðingarorlof til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Barnafjölskyldur eru skildar eftir.

Ungt fólk er að festast í fátæktargildru. Þenslan á húsnæðismarkaði veldur miklum vandræðum sem þarf að bregðast við með afgerandi hætti. Ríkið þarf að koma strax að uppbyggingu á félagslegum úrræðum. Ekkert er fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála. Það var því kaldhæðnislegt að eitt af fyrstu verkum hæstv. félagsmálaráðherra hafi verið að lýsa yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaði og stofna nefnd um málið. Við í Samfylkingunni höfum bent á ófremdarástand á húsnæðismarkaði í fjögur ár en því miður við litlar undirtektir. Því biðum við spennt eftir fjármálaáætluninni. En hvað birtist okkur þar? Framlög í liðinn húsnæðisstuðning fara úr rúmum 14 milljörðum árið 2017 og enda árið 2022 í 12 milljörðum. Þau lækka um 2 milljarða. Viðbrögðin við neyðarástandinu eru 15% lækkun á húsnæðisstuðningi.

Frú forseti. Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um algera nauðsyn þess að styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Yfir 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun þess efnis að framlög til heilbrigðismála yrðu 11% af landsframleiðslu. Framlögin verða 7,85% af landsframleiðslu í lok tímabilsins eða 0,85% prósentustiga hækkun. Hér birtist ekki mikil virðing fyrir nokkurra mánaða gömlu kosningaloforði.

Sé horft til skemmri tíma blasir jafnvel við enn dekkri mynd. Framlög til reksturs sjúkrahúsþjónustu árið 2018 verða aðeins 0,41% hærri en í ár. Það dugar ekki til að halda í við áætlaða þjónustuaukningu vegna fjölgunar landsmanna og ferðamanna. Hvað þá til að takast á við kostnað sem fylgir sífellt hækkandi aldri þjóðarinnar. Líklega þarf að skera niður í starfsemi Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri á næsta ári.

Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um fjármálaáætlunina án þess að tala um áhrif hennar á efnahagslífið í heild, ekki síst útgjaldareglu ríkisstjórnarinnar. Með útgjaldareglunni virðist allt traust vera lagt á sífellt bólgnara hagkerfi. Verði héraðsbrestur með magrari árum lendir ríkisstjórnin í spennitreyju með bara einn hlut í vopnabúrinu, niðurskurðarhnífinn. Að festa útgjöld ríkisins sem 41,5% af landsframleiðslu þegar þessi ríka krafa er um að útgjöld aukist er stórhættulegt. Svigrúm til að auka útgjöld er of lítið og gefur ríkinu takmarkað svigrúm til að halda efnahagslífinu gangandi ef um hægist.

Við upplifum methagvöxt í hinum vestræna heimi. Hann vill ríkisstjórnin nýta í þágu þeirra sem best standa. Allir flokkar, líka flokkarnir í ríkisstjórn, skulda landsmönnum að standa við stóru orðin sem féllu fyrir kosningar. Ríkisstjórn sem hvílir á veikum meiri hluta, nýtur lítils stuðnings samkvæmt skoðanakönnunum og logar í innbyrðis deilum um flest mál hefði betur leitað sátta við stjórnarandstöðuna við útfærslu á þessari fjármálaáætlun.

Frú forseti. Ísland er í sóknarfærum til að nýta einstakt árferði. Það er til komið vegna vel heppnaðrar úrvinnslu efnahagsmála í kjölfar hrunsins, makrílgöngu og stóraukinna heimsókna ferðamanna. Allt þetta hefur lagt grunninn að þeirri velgengni sem við búum við í dag. Við eigum að geta byggt upp farsælt, friðsælt samfélag sem er eftirsóknarvert að lifa í. Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa framsýni eða kjark til að stefna þangað. Það er sorglegt.