146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framtíðarsýn í menntamálum.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er tryggur ríkisstjórninni og tekur fram að hann styðji áætlunina þó að um leið komi fram í máli hans jú að ekki er verið að standa við væntingar, ekki bara væntingar í kosningaloforðum því það er svo sannarlega ekki verið að standa við þær, heldur beinlínis samþykktar væntingar í fjármálaáætlun frá ráðherrum sama flokks og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er í. Það er ekki verið að standa við þær væntingar sem hafa verið gefnar með stefnu Vísinda- og tækniráðs hvað varðar fjárframlög á nemanda í háskólum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að öðru sem kom hér fram í gær. Við samþykktum tillögu um að byggja náttúruminjasafn í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Náttúruminjasafnið er hvergi að finna í fjármálaáætluninni. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær í fyrirspurn um sama efni að hann vísaði til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þetta mál. Nú spyr ég: Hvað þarf til að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra geti sótt hér fjármuni ef ekki einu sinni dugir til að hafa samþykkt Alþingis á bak við sig, (Forseti hringir.) eins og við sannarlega höfum, nýja samþykkt Alþingis um að hluti af hátíðahöldum vegna 100 ára afmælis fullveldis þjóðarinnar sé uppbygging náttúruminjasafns? Eða getur hæstv. ráðherra kannski fundið það fyrir mig ef hana er hér að finna?