146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framtíðarsýn í menntamálum.

[10:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess hér, til viðbótar við það sem ég sagði við hv. þingmann hér áðan, að megináherslan í fjármálaáætluninni sem hér liggur fyrir er aukin útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála, svo að það sé sagt og undirstrikað. Og auðvitað tekur einhvers staðar í.

Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi nefnir hér um náttúruminjasafnið finn ég þess ekki stað í fjármálaáætluninni, eðlilega, vegna þess að það er ekki þar. (KJak: Þrátt fyrir samþykkt Alþingis?) Þrátt fyrir samþykkt Alþingis. Ég sendi inn erindi og beiðni um það en ekki var svigrúm til að mæta þeim óskum eins og mörgum öðrum sem lagðar voru fram við gerð fjármálaáætlunar. (KJak: Þetta er ekki ósk, þetta er samþykkt.) Óskum frá ráðuneytinu við fjárlagagerð. Svo að það sé bara undirstrikað og svo að það sé enginn misskilningur hér í umræðunni þá er fullt af erindum sem ráðuneytin senda inn við fjárlagagerð sem fá ekki framgang þar. Þetta er eitt þeirra. Svo að það sé upplýst. (Gripið fram í.) Það eru engin undirmál í því.