146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjárframlög til Matvælastofnunar og eftirlitshlutverk.

[10:41]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegur forseti. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti skilaði nýverið skýrslu um Matvælastofnun, henni var skilað 27. mars sl. Samkvæmt skýrslunni eru fjölmörg stór og viðamikil mál og verkefni sem MAST hefur fengið til sín á síðustu sjö árum. Það er líka tekið fram að deildir innan húss ná ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Síðasta dæmið um það þar sem stofnunin brást er Brúneggjamálið. Með leyfi forseta:

„Þegar starfsemi MAST hófst í núverandi mynd störfuðu 75 manns hjá stofnuninni, en nú eru um 90 fastir starfsmenn í þjónustu MAST. Aðeins hluti þessarar fjölgunar starfa er vegna þeirra verkefna sem tengjast eftirlitshlutverki MAST.“

Eftir nánari eftirgrennslan gerði ég hausatalningu og þar starfa um 93 manns í dag. Auglýst er eftir þremur til viðbótar en ekki er verið að leita eftir fólki á þeim svæðum þar sem fiskeldi er áformað í uppbyggingu eða með menntun því tengdu. Með þeim stóru verkefnum sem stofnuninni voru færð síðast árið 2015, eftirlit og stjórnsýsla vegna fiskeldis frá Fiskistofu og Umhverfisstofnun, þá virðist sem fjármunir hafi ekki fylgt verkefnunum. Á fjárlögum milli 2010–2017 er nokkuð línuleg fjáraukning til stofnunarinnar um 100 millj. kr. á ársgrundvelli. Það er nokkurn veginn það sama í fjármálaætluninni, eftir því sem ég kemst næst. Það kemur síðan fram í Kastljósi þriðjudags að ekki fylgdu nægilegir fjármunir þeim verkefnum sem stofnuninni voru færð og raunar ekki nægilegir fjármunir til staðar til þess að stofnunin geti sinnt upprunalegu hlutverki sínu.

Því langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Telur ráðherrann, miðað við þessar forsendur, að Matvælastofnun geti sinnt eftirlitshlutverki sínu við fiskeldi með núverandi fjármögnun og þeirri sem áætluð er í fjármálaáætlun?