146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjárframlög til Matvælastofnunar og eftirlitshlutverk.

[10:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á skýrslunni um Matvælastofnun. Ég lagði hana fyrir þingið sem þingskjal því að ég tel þetta vera mjög brýnt plagg sem eigi erindi við þingheim allan. Ég hef m.a. óskað eftir því við hæstv. forseta að það fari fram umræða um Matvælastofnun þar sem við getum stutt stofnunina héðan úr þingsal, talað um matvælaöryggi og hlutverk Matvælastofnunar, m.a. í tengslum við fiskeldi. Mér finnst ég greina ákveðnar áhyggjur hjá hv. þingmanni varðandi MAST og ég deili þeim að vissu leyti. Við þurfum að styðja þessa stofnun. Þetta er ein mikilvægasta stofnunin fyrir okkur til að tryggja öryggi matvæla, öryggi neytenda og samfélags, í því sem skiptir miklu máli, hvort sem það er í innflutningi eða útflutningi, framleiðslu innan lands, þá þurfum við að tryggja ákveðin atriði.

Varðandi fiskeldið þá eru þar líka ákveðnar reglur. Við erum með skilgreiningu og skilyrði um að það séu sérstakir dýralæknar fisksjúkdóma. Þá vantar einfaldlega, það er eftirspurn eftir einstaklingum með slíka sérþekkingu. Það eru tveir starfandi innan Matvælastofnunar með slíka sérþekkingu. Einn er starfandi úti hjá FAO, síðan er einn sjálfstætt starfandi og svo einn hjá fiskeldisfyrirtækjunum. Síðan erum við með skilyrði héðan úr þingsal, m.a. um að dýralæknar eigi að tala íslensku. Þetta er eitt af þeim hlutverkum sem ég held að Alþingi eigi að líta yfir og skoða. Hvað getum við gert til að auðvelda stofnuninni að sinna þessu mikilvæga hlutverki sínu, eftirlitshlutverki í tengslum við fiskeldið sem verður bara meira í ljósi þess að umfang fiskeldis mun aukast á næstu árum? Þess vegna þurfum við hér í þingsal að styðja við stofnunina og nota skýrsluna og þær ábendingar sem þar koma fram til þess að efla stofnunina og styðja betur við hana.