146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjárframlög til Matvælastofnunar og eftirlitshlutverk.

[10:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Forseti. Ég vek athygli á því að það er starfandi núna nefnd sem hefur það hlutverk að móta stefnu, koma með tillögu til mín varðandi fiskeldið í landinu og hún á að skila í sumar. Ég hef lagt ríka áherslu á það við nefndina og nefndarformanninn að hafa samráð við atvinnuveganefnd þingsins, sem mér skilst að hafi einmitt fundað með nefndinni í morgun, og síðan umhverfisnefnd þingsins ekki síður.

Það skiptir miklu máli.

Ég held að í ljósi þess muni mikil vinna m.a. mæða á þinginu hvað það varðar að móta stefnu. Mér finnst tækifæri í því að móta þverpólitíska stefnu til að byggja upp fiskeldi til lengri tíma. Ég leyni því ekki að mér finnst að menn eigi að fara sér hægt. Menn eiga að fara rólega þangað til við erum búin að byggja hér upp bæði ábyrga og skýra sýn varðandi fiskeldið og líka tryggja undirstöðurnar og innviðina. En það er meira en að segja það að fara leiðina sem Svíar hafa farið eða Alaska og taka fyrir fiskeldismál á landinu öllu. Það er engin tilviljun að til að mynda tíu vikna sjómannaverkfall hafði lítil sem engin áhrif á suðurhluta Vestfjarða. Það var út af því að það var kominn annar grunnur, önnur grunnatvinnugrein á svæðið og þess vegna segi ég: Förum varlega í þessu, reynum að líta á alla hagsmuni, reynum að gera þetta heildstætt og reynum að gera þetta saman, kæri þingheimur.