146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

sala Seðlabankans á hlut sínum í Kaupþingi.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að láta koma fram að stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórnin, hefur ekki nein bein afskipti, enga beina aðkomu að þeim fjármálalegu gerningum sem Seðlabankinn stendur í og það á með sama hætti við um sölu á þeim eignarhlut sem þarna er verið að vísa til.

Varðandi áhrifin af viðskiptasamningum sem viðkomandi hlutafélag kann að hafa verið í þá verð ég bara að játa það að vegna þess sem ég hef nefnt er mér ekki kunnugt um það með hvaða hætti Seðlabankinn kann að hafa haft eða ekki haft einhverjar upplýsingar um þetta. Eina sem ég get sagt um þessi mál er að við erum að ræða um fyrirtæki sem eru óskráð, það er á hverjum tíma töluvert mikið áhorfsmál hvers virði hlutirnir eru. Hér er nefnt að sumir telji hlutina vera jafnvirði eigin fjár. Við sjáum nýlega kaupsamninga ganga út á það að fjármálafyrirtæki eins og á við Arion banka metin upp á 80% af eiginfjárvirði, sem eðlilega kallar fram spurninguna um það hvers vegna slík fyrirtæki eru ekki leyst upp ef innra virðið, sem sagt eiginfjárvirðið, er raunverulega yfir markaðsvirðinu. Það er engu að síður þannig að víða um lönd eru fjármálafyrirtæki að seljast töluvert undir bókfærðu virði eigna.

Eins og mönnum má vera ljóst hef ég ekki upplýsingar til þess að svara nákvæmlega þeim atriðum sem að mér er beint varðandi aðdragandann og fyrirvara sem Seðlabankinn kann að hafa gert. Við höfum að því enga aðkomu. En mér þykir hins vegar rétt ábending hjá hv. þingmanni að það er sjálfsagt að kalla eftir þessu og fá skýringar.