146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög í fjármálaáætlun og kosningaloforð.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það er aðeins erfitt að halda þræði hér í þessari umræðu. Varðandi skatta: Já, við teljum ekki ástæðu til að hækka skattbyrðina í landinu, enda í samanburði við OECD-ríki eða önnur nágrannalönd er skattbyrðin á Íslandi þó nokkuð há. Við erum ekki að boða miklar skattalækkanir í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er misskilningur ef menn telja að það sé verið að gera það enda tel ég að heilt yfir bjóði aðstæður ekki mjög upp á það núna. Það sem við höfum séð á undanförnum árum er verulega mikil kaupmáttaraukning, einkaneyslan hefur verið að taka við sér. Það er mikill sláttur á hagkerfinu, mikill hagvöxtur. Það eru ekki beinlínis efnahagslegar aðstæður sem kalla á að ríkið sé að auka við svigrúm í hagkerfinu.

Hins vegar, þegar kemur að peningastefnunni, er bara einfalt að benda á að við erum nýbúin að fella þau mál í ákveðinn farveg. Það er alveg skýrt á hvaða grundvelli við erum að vinna þá vinnu. Það er engin ástæða til þess að ætla að ágreiningur sé um það mál.