146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög til nýsköpunar.

[11:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að í fjármálaáætlun eru metnaðarfull markmið og framtíðarsýn. Það er mjög meðvitað að það eru ekki tölur þar að baki. Ef meiri fjármunir væru í þennan málaflokk eins og aðra myndi ég taka því fagnandi.

Ég held að framtíðarsýn sé að við verðum leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar. Ég held að við höfum fulla burði til þess og ég trúi því. Meginmarkmið málefnasviðsins er þetta alþjóðlega samkeppnishæfa umhverfi rannsóknar og nýsköpunar. Við leggjum áherslu á þessi gæði; gagnsæi, alþjóðasamstarf og árangur.

Við höfum á undanförnum árum stóraukið fjármagn til að mynda í Tækniþróunarsjóð. Það hefur verið áherslumál og var það á síðasta kjörtímabili og er skýrt að verður áfram áherslumál á þessu kjörtímabili.

Ég held að við munum eins og ég segi geta gert margt á komandi árum. Ég held að sömuleiðis með þeirri tækni sem nú er séu stórkostleg tækifæri fram undan. Ég er viss um að slíkar framkvæmdir og breytingar þurfa ekki allar að kosta mikið fé.