146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög til nýsköpunar.

[11:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég hef fullan hug á því að setja þessi mál á dagskrá og mun gera það. Ég bendi á að þessi fjármálaætlun er auðvitað ekki fjárlögin. Hér kom hv. þingmaður inn á menntamálin. Það er auðvitað í verkahring annars ráðherra að taka á þeim og fjalla um þau. En það er alveg rétt að nýsköpun fer þvert á allar greinar. Einhverjir gætu sagt að það væri erfitt með þessar súlur sem við lifum við, en ég held að í því felist líka stórkostleg tækifæri.

Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni að sjóðirnir séu vanfjármagnaðir. Það má vel halda því fram að það mætti setja aukið fjármagn í þá en þeir eru ekki vanfjármagnaðir í þeim skilningi. Það hefur verið aukið í þessa sjóði. Þess vegna finnst mér ekki alveg sanngjarnt að horfa á það sem kemur til viðbótar nú, heldur finnst mér við þurfa að taka það á aðeins lengra tímabil.