146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um stefnu sem á að gilda til næstu fimm ára verði ekki kosningar í millitíðinni, sem ég vonast reyndar eftir. Við sjáum það í þeirri áætlun sem birtist og fylgir stefnunni að þar endurspeglast það sem við gerðum ráð fyrir í minni hlutanum og það sem við Vinstri græn höfum rætt um í tengslum við stefnuna og í umræðum um fjármálaáætlunina. Áætlunin endurspeglar útgjaldaþakið og stefnan lokar okkur inni nema um verði að ræða einhvers konar hamfarir. Það verður að taka mið af þeim sem um málið fjalla, m.a. fjármálaráðinu, sem á að vera óháð. Það segir: Miðað við hversu mikla óvissu framtíðin ber í skauti sér telur fjármálaráð að jafnvel þó að ítarleiki leiði til gagnsæis þá gangi það gegn öðrum grunngildum að niðurnjörva alla liði fjármálastefnunnar. Ráðið gagnrýnir einnig útgjaldaþakið og telur algjörlega ótækt að loka okkur inn með þeim hætti sem þar er gert.