146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:18]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú fjármálastefna sem hér er mörkuð til næstu fimm ára endurspeglar mjög góðar horfur í íslenskum efnahagsmálum. Við munum sjá að hagsveiflan verður nýtt til að stórbæta skuldastöðu ríkisins. Við munum áfram reka ríkið með afgangi, sem er ekki sjálfsagður hlutur í Evrópu í dag eins og margir þekkja. Við munum á sama tíma og við skilum afgangi og lækkum skuldir geta aukið við framlög í alla mikilvægustu málaflokkana. Þetta gerum við í kjölfarið á því að raunútgjaldavöxtur ríkisins var upp á 8,5% á yfirstandandi ári samkvæmt fjárlögum. Það er gríðarleg útgjaldaaukning. Ég verð að segja að mér finnst nokkuð holur hljómur í því, þegar við höfum aukið útgjöldin jafn ört og raun ber vitni, og hér er haldið áfram að bæta í þótt því sé stillt nokkuð í hóf, að meginþemað frá stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) skuli vera það að (Gripið fram í.) ekki sé nóg að gert. Það er eitt sem við ættum að minnsta kosti að vera sammála um: Ef eitthvað er þá er þessi fjármálastefna (Forseti hringir.) mögulega ekki nægjanlega aðhaldssöm miðað við aðstæður.