146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er eitthvað sem segir mér að þetta verði ekki mjög langlíft plagg jafnvel þó að stjórnarflokkunum takist hér, með því að hafa smalað öllu sínu liði og hrúgað inn fullt af varaþingmönnum, með fullri virðingu fyrir þeim, að fá þetta hér í gegn þá muni þetta ekki lifa lengi. Því veldur hið fráleita útgjaldaþak sem hér er sett inn í viðbót við hinn lögbundna ramma um opinber fjármál. Það er algerlega fráleitt og með því eru nánast algerlega teknir burtu allir möguleikar til sveiflujöfnunar með opinberum fjármálum. Heildarútgjöld hins opinbera eru um 41% af vergri landsframleiðslu en þakið er 41,5. Það er hálft prósent borð fyrir báru, 12 milljarðar. Hvað þarf til? Segjum nú að landsframleiðslan dragist saman um þetta hálfa prósent. Þá stanga menn þakið og geta ekki einu sinni beitt þó því svigrúmi sem lögin sjálf kveða á um. Þetta er algerlega fráleit viðbótarráðstöfun. Það hafa engin sómasamleg rök komið hér fram í umræðum um það af (Forseti hringir.) hverju þessari dólganýfrjálshyggju er troðið hér inn í þetta mál í viðbót. Þess vegna eiga menn að fallast á þá breytingartillögu að þetta fari út.