146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tel mér skylt að koma hérna upp aftur til að svara því sem að mér var beint og vil biðja menn að fara varlega þegar þeir saka aðra um að ganga annarlegra erinda eða saka mig og minn flokk um undirlægjuhátt við aðra. Björt framtíð er fullur þátttakandi í þessari ríkisstjórn. Við styðjum þessa fjármálastefnu. Við styðjum þá ábyrgu stefnu gagnvart almennri hagstjórn. Fjármálastefnan er mikilvægt verkfæri inn í almenna hagstjórn. Við vitum það að í öllum rekstri er annars vegar innkoma og hins vegar útkoma. Það eru útgjöld og það eru tekjur. Við förum hér hóflega millileið þar sem tekjunum er stillt í hóf í efnahagslegum tilgangi, en á sama tíma styðjum við við mikla aukningu í útgjöldum sem á sér stað árið 2017. Við bætum í. Það er rangt, það eru hreinlega falsfréttir að niðurskurður sé í heilbrigðismálum vegna þess að það [Hávaði í þingsal.] er verið að auka við (Forseti hringir.) (Gripið fram í: … úr þjónustu.) í heilbrigðisþjónustu og eins og við vitum er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að það sé aukið með forgangsröðun á velferðarmál eftir því sem líður á tímabilið.