146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefði verið æskilegt að stjórnarliðar hefðu komið og tekið þátt í umræðunni á meðan hún var í gangi. Nú loksins heyrist í þeim hérna. Nú á að reyna að rétta hlutinn í atkvæðaskýringum. Hæstv. félagsmálaráðherra kemur hér og sakar aðra menn um ábyrgðarleysi. Það er auðvitað ábyrgðarleysi, sem er m.a. gagnrýnt af umsagnaraðilum þessa máls, fjármálaráði, Seðlabankanum o.fl., sem við sitjum uppi með, að búið er að veikja tekjugrunn ríkisins um 50–70 milljarða kr. Hagsveifluleiðrétt afkoma ríkisins er í járnum eða í mínus. Það er nú allur glæsileikinn. Þess vegna er þetta svona magurt inn í framtíðina.

Fari svo að þetta verði samþykkt þá er komin enn ein og mjög gild ástæða til að koma þessari ríkisstjórn frá því að það verður ekki unað við þetta. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir að það þurfi að bíða þar til betur árar. Betur árar? Hvenær eru aðstæður til að byggja upp á Íslandi ef ekki nú á sjöunda ári í miklum hagvexti? (Forseti hringir.) Þessi málflutningur stenst ekki. Það er ekki við okkur að sakast að ríkisstjórnin er hér með þetta snautlega plagg í höndunum, sem maður óskar henni þá til hamingju með, því að hún hefur skrifað sína grafskrift með því.