146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gott að fá að heyra hvað stjórnarmeirihlutanum finnst um sín eigin mál. Það er ekki að ástæðulausu að við hér í minni hlutanum og í stjórnarandstöðunni leggjumst gegn þessu máli enda er mjög margt sem þarf að skýra enn frekar í fjármálastefnunni til þess að hún sé tæk. Fjármálaráð, sem á að gera úttekt á fjármálastefnu, gerir margvíslegar athugasemdir, en hins vegar á að samþykkja þetta óbreytt. Það á að samþykkja þetta með engum breytingum frá Alþingi. Hér segir til dæmis að leiðrétting fyrir áhrifum hagsveiflunnar er undirliggjandi afkomu og raunverulegt aðhaldsstig óljóst. Það er ekkert vitað hvort þetta er í raun aðhaldssöm stefna, alla vega ekki samkvæmt fjármálaráði. (Gripið fram í.)— Já, þú ert búinn að fullyrða það, en við vitum það ekki. Það er ekkert á bak við þessa stefnu. Það eru engin greiningarlíkön. Það er ekki neitt. Þetta eru bara orðin tóm. Umsögn fjármálaráðs sýnir fram á það.