146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hæstv. velferðarráðherra kemur hér og gumar af því að framlög til velferðarmála hafi aldrei verið meiri hlutfallslega, eins og hér sé komin hin klassíska vinstri stjórn sem ætlar að huga að velferðarmálum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa bls. 16 í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun. Svona til að skemmta ræðuskrifurunum ætla ég að halda þessari mynd hér á lofti, því að hér sést samneyslan sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hún hækkar lítillega milli ára, nær því sem hún var síðast í kringum 2015, en svo lækkar hún aftur á þessum fimm árum og fer undir það sem hún er í ár. Þannig að menn ættu nú að hætta að guma svona af þessu og hæstv. ráðherra til enn frekari skemmtunar skal ég lesa upp úr þessu plaggi, með leyfi forseta:

„Raunvöxtur samneyslu á síðasta ári var 1,5% en gert er ráð fyrir minni vexti í ár eða 1%.“