146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þó að seint sé vil ég aðeins færa rök fyrir því að fallast á þessa breytingartillögu. Hún mundi stórlaga þetta mál. Í lögum um opinber fjármál eru ákveðnir rammar um það hvernig beita megi ríkisfjármálunum til sveiflujöfnunar. Þar er ákvæði um að á hverju fimm ára tímabili skuli vera jöfnuður og á hverju einstöku ári megi ekki reka ríkissjóð með meira en 2,5% halla, síðan er skuldaviðmiðið. Komi þessi viðbótarregla inn þá er hún mjög líkleg til að hafa þau áhrif að ekki einu sinni þetta svigrúm verði til staðar ef menn vildu beita því. Það er nærtækt að taka það dæmi að ef landsframleiðslan óvænt yrði nú samkvæmt spá hálfu prósentustigi minni á einhverju komandi ári 18, 19, segjum þá 19, þá væri ekkert svigrúm, þá mætti ekki einu sinni nota það svigrúm sem lögin sjálf bjóða upp á. Það hafa engin haldbær rök, að minnsta kosti ekki efnahagsleg, komið fram fyrir því að setja þessa viðbótarnýfrjálshyggjugirðingu inn í málið. Hún mun því miður þrengja mjög (Forseti hringir.) að þessari ríkisstjórn ef svo illa fer að hún sitji í meira en tvö ár.