146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[11:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur erum við í minni hlutanum ekki á sama máli og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar. Við teljum ekki forsvaranlegt að festa í sessi bráðabirgðaákvæði um einhvers konar færibandaafgreiðslu fólks frá svokölluðum öruggum ríkjum sem hefur svokallaðar tilhæfulausar umsóknir. Hvorugt hugtakið hefur verið útskýrt nægjanlega innan nefndarinnar til að sannfæra okkur um að þetta verði málefnaleg umfjöllun um hvert og eitt mál sem kemur til stjórnvalda. Þar með eigum við á hættu að brjóta á rétti fólks í þeirri veikustu stöðu sem nokkuð okkar gæti lent í, að vera flóttamaður.

Hvað varðar hinn hluta frumvarpsins, sem snýr að leiðréttingu varðandi hjúskap og sambúð, þá má nú löggjafinn aðeins líta í eigin barm þegar við komumst upp með að gera jafn afdrifaríkar villur við lagasetningu, að ráðherra þurfi að koma tveimur mánuðum eftir að lög taka gildi og leiðrétta af því að mögulega (Forseti hringir.) er verið að brjóta á fólki úti í bæ vegna þess.