146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Hér er um að ræða mistök sem ég held að við munum senn þurfa að leiðrétta. Ákvæði sem þetta sem við samþykktum við 2. umr., þess efnis að kærunefnd útlendingamála sé gert algjörlega ókleift að fresta réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar ef einstaklingur kemur frá svokölluðu öruggu upprunaríki, stangast á við tilskipun um sameiginlega staðla Evrópusambandsins um brottvísun útlendinga sem dvelja ólöglega í landinu. Þetta bann er að finna í 3. mgr. 12. gr. evrópsku tilskipunarinnar og við munum væntanlega fá einhverjar leiðbeiningar frá Evrópusambandinu þegar frá líður og upp kemst um þessi önnur leiðu mistök sem urðu í lagasetningu Alþingis er snúa að réttindum flóttamanna hér á landi.

Ég er að láta ykkur vita núna en mögulega hefðum við vitað af þessu fyrr ef hv. meiri hluti hefði haft fyrir því að kalla til Rauða krossinn og Lögmannafélag Íslands sem höfðu ýmislegt um þetta mál að segja, eru öllu vitrari um þetta mál en margir aðrir og hafa vinsamlegast bent okkur á að þetta stangast á við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, ekki bara mannréttindi sem virðast hvort eð er fótum troðin í þessari stofnun á hverjum einasta degi, heldur Evróputilskipun sem við virðumst stundum leggja okkur fram við að fylgja á þessu þingi. Ég vildi bara koma því til skila að ekki einungis látum við fjárhagshugsjónir ráða för í því að skerða mannréttindi einstaklinga sem er bara óforsvaranlegt, frú forseti, heldur erum við einnig að brjóta á ESB-tilskipun sem við höfum innleitt í íslenskan rétt og erum þar með að samþykkja ólög. (Gripið fram í.)