146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

um fundarstjórn.

[12:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju með það að okkur lánaðist að ná samkomulagi um það hvernig við ætluðum að haga þessari umræðu. Það skiptir miklu máli að ráðherrar séu hér allir til svara. Við erum jú að ræða, eins og margoft hefur komið fram, fimm ára áætlun í málaflokkum. Við erum hér með að loka okkur inni, ef svo má að orði komast, í þeim ramma sem við teljum að sé forsvaranlegt að ráðstafa til hvers málaflokks fyrir sig. Af þeim sökum sé ég mig knúna til þess, við upphaf þessarar umræðu, án þess að ég ætli að dvelja við það tímunum saman, að gera við það alvarlega athugasemd að hér séu tveir fagráðherrar ekki til svara heldur séu hérna staðgenglar þeirra til að fjalla um viðkomandi málaflokka. Ég vænti þess að staðgenglarnir séu vel undirbúnir og tilbúnir til að svara ítarlegum spurningum um þá málaflokka sem þeir standa fyrir í þessari umræðu.