146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

um fundarstjórn.

[12:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Vegna þeirra athugasemda sem hafa komið fram, um fjarveru tveggja ráðherra við þá umræðu sem skipulögð er í dag, er rétt að það komi fram að þegar verið var að ræða fyrirkomulag þessarar umræðu á fundi þingflokksformanna síðastliðinn mánudag þá vakti ég athygli á því að ef þetta fyrirkomulag yrði valið þyrftu menn að hafa í huga að vera kynni að einn eða fleiri ráðherrar yrðu fjarverandi og því yrði þá mætt með því að staðgengill tæki umræðuna fyrir viðkomandi ráðherra. Það hefur því legið fyrir frá upphafi að þetta kynni að verða með þessum hætti. Sama fyrirkomulag hefur verið viðhaft þegar spurningar til ráðherra hafa verið heimilaðar samkvæmt samkomulagi um umræðu um fjárlög, þannig að fyrir því eru fordæmi.