146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:11]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Nú er fjármálaáætlun lögð fram í annað sinn. Þetta er töluvert viðamikið rit sem segir mikla sögu um umsvifamikinn opinberan rekstur hér á landi. Þetta er áætlun til fimm ára á öllum sviðum ríkisrekstrar, stefnur, markmið og viðmið. Jafnframt eru sett fram fjárhagsleg markmið um afgang af opinberum rekstri og lækkun skulda.

Þótt tekist hafi verið á um fjármálastefnuna í þinginu að þessu sinni, og sitt sýnist hverjum um hvernig svigrúminu er skipt eða það skapað, tel ég alveg ótvírætt að sá nýi rammi sem við störfum núna eftir á grundvelli laga um opinber fjármál hafi markað mikil tímamót í umræðu um þessi mál í þinginu. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að þingið er orðið beinn þátttakandi í umræðunni á mótunarstigi stefnumörkunar til næstu ára. Við erum hér á vormánuðum að leggja upp með fjárlagagerðina fyrir næsta ár en líka að draga línuna fyrir árin þar á eftir. Þetta munum við gera árlega á komandi árum. Þegar horft er til baka í þingsögunni er alveg ótvírætt að það hefði svo miklu fyrr átt að stíga þau skref sem við höfum stigið með þessari breytingu.

Lögin virka sem sagt ótvírætt að mínu áliti. Þau virka í starfi ráðuneyta og stofnana. Við finnum fyrir því að stefnumörkunin, viðmiðin sem eru sett hér, hvort sem eru viðmið í lögunum sjálfum eða viðmiðin sem fram koma í áætluninni, rammar inn umræðu um þessi mál. Við horfum í auknum mæli til þess hvar við stöndum gagnvart þeim viðmiðum sem við höfum sett fram.

Þótt ég segi þetta og finni fyrir því, t.d. undir lok fjárlagagerðar og meðferðar fjárlagafrumvarpsins á síðasta ári, að töluvert mikil hugarfarsbreyting hafi orðið á Alþingi, sem birtist m.a. í því að menn horfðu ávallt á einhver afkomumarkmið og ekki komu fram nýjar útgjaldatillögur án þess að leitast væri eftir að þær væru á sama tíma fjármagnaðar, tel ég að við séum enn í sjálfu sér að slíta barnsskónum á þessari leið. Þetta verkferli allt kemur til með að halda áfram að þroskast á næstu árum.

Eins og gefur að skilja eru málefnasvið sem falla undir forsætisráðuneytið í öllum meginatriðum verulega frábrugðin því sem á við í fagráðuneytunum. Við ríkisstjórnarmyndunina gerðum við breytingar sem fólust í því að við sendum aftur út til fagráðuneytanna nokkur verkefni sem höfðu heyrt undir forsætisráðuneytið. Það voru t.d. verkefni sem rötuðu aftur til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ég get nefnt sem dæmi þjóðgarðinn á Þingvöllum, hann fór síðan til umhverfisráðuneytisins þar sem aðrir þjóðgarðar eru. Ég get sömuleiðis nefnt Vísinda- og tækniráð, það er í dag vistað í menntamálaráðuneytinu. Þegar maður horfir yfir sviðið út frá málefnaflokkuninni sem er að finna í fjármálaáætluninni er ekki efni í langar umræður um þau mál þó að við getum svo sem rætt um æðstu stjórn og aðra slíka hluti.

Þess vegna vil ég nota tækifærið hér fyrst og fremst til að fagna því þroskaskrefi í þingsögunni að við höfum nú fært okkur inn á alveg nýjar lendur í umræðu um opinber fjármál, að við séum hér að vori til að ræða fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Við finnum fyrir því, m.a. með fyrirkomulagi umræðna hér í dag, að við erum að finna taktinn okkar. Ég fagna þeirri hugmynd að ráðherrarnir standi hér fyrir svörum með svipuðum hætti og þeir gera í fjárlagaumræðunni fyrir sín málefnasvið.

Heilt yfir erum við að skapa umhverfi með þessari þingsályktunartillögu til lækkunar vaxta. Við ætlum að lækka skuldir og nýta lægri vaxtakostnað til að byggja upp innviði. (Forseti hringir.) Vonandi verður þetta allt saman til þess að auka hér stöðugleika, tryggja stöðugra gengi og meiri stöðugleika í bæði heimilishaldi og fyrirtækjarekstri í landinu.