146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir orð hans í upphafi þessarar ráðherraumræðu. Mig langar að staldra við það sem hann segir um vinnulagið og aðkomu þingsins. Vissulega var Alþingi á tímapunkti komið allt of langt inn í að vera í úthlutun til smáverkefna. Þegar ég byrjaði á þingi, 2007, var fjárlaganefnd Alþingis að úthluta milljarði í mjög mörg smáverkefni sem er ekki hlutverk fjárlaganefndar Alþingis.

Ég get verið sammála því að það er mikilvægt að Alþingi taki pólitíska afstöðu til þess hversu stórir rammarnir eigi að vera, hversu mikla pólitíska áherslu við viljum setja á tiltekna málaflokka, en taki ekki endilega fyrir úthlutanir upp á smáaura þannig séð.

Þessi lög voru samþykkt og ég gagnrýndi á sínum tíma að á þeim tíma fylgdi t.d. ekki aukin fjárveiting til Alþingis til að innleiða lögin en um leið gerbreytist hlutverk Alþingis. Við erum að ræða fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög þar sem á endanum er ekki gert ráð fyrir að við greiðum atkvæði um einstaka liði. Tilfinning mín er að Alþingi þurfi að fá sérstakan stuðning við það hvernig við ætlum að innleiða þessi lög. Samkvæmt stjórnarskrá liggur fjárstjórnarvaldið hér. Hér tökum við stórar ákvarðanir án þess kannski að hafa nægjanlegar forsendur og sérfræðiþekkingu til að takast á við það hlutverk.

Ég velti líka fyrir mér, sem tengist því máli sem við greiddum atkvæði um áðan, að við erum búin að setja upp fjármálaráð. Það er fínt, en hvert er bakland fjármálaráðsins? Hvaða sérfræðiaðstoð fær það ef við berum t.d. saman við peningastefnunefndina og þá sérfræðiaðstoð sem hún nýtur úr Seðlabankanum? Svo eigum við að hafa fjármálaráð sem virkar í raun sem mótvægi við peningastefnuna til að þessir tveir pólar tali saman og myndi grunn að stefnu stjórnvalda. Þarna vantar einhvers konar þjóðhagsstofnun. (Forseti hringir.) Þar sem þessi fjármálaráð hafa verið sett á laggirnar hafa þau eitthvert sérfræðibakland. Það er annars vegar Alþingi og hins vegar fjármálaráðið, þarf ekki að horfa til þess að styrkja þessa pósta?