146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:23]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið snúið mál að innleiða svona breytingar á mörgum árum. Þetta er dálítið annaðhvort eða mál. Einhver hefði getað sagt að við hefðum getað byrjað á fjármálastefnunni og tekið svo fjármálaáætlunina í einhverjum pörtum, en mér finnst við hafa náð mjög miklum árangri á skömmum tíma. Við höfum leitt í lög grundvallarbreytingar hvað það snertir hvernig við nálgumst þetta. Ef við hefðum ætlað að gera þetta í áföngum segi ég: Samkvæmt gamla fyrirkomulaginu vorum við eiginlega ekki að gera neitt af þessu. Mér finnst við hafa sett okkur mjög metnaðarfull markmið og náð töluvert miklum árangri á skömmum tíma. Við samþykktum hvorki fjármálastefnu né fjármálaáætlun fyrr en í fyrra í fyrsta skipti og það gerðist seint. Varðandi það að við séum búin að ramma inn fjárlög næsta árs vil ég benda á að síðastliðið vor komu fram stefna og áætlun, áætlunin horfði á árið 2017 sem við lifum núna og hún var afgreidd hér síðsumars. Frá því að sú áætlun kom fram, en hún var samþykkt óbreytt, og þar til fjárlög voru afgreidd breyttist tekju- og gjaldahliðin um tugi milljarða. Ef ég man rétt lætur nærri að það hafi verið í kringum 30 milljarðar sem fóru til viðbótar á útgjaldahlið og birtust á tekjuhliðinni vegna þess að ýmsar forsendur höfðu breyst í millitíðinni. Þessi áætlun er að sjálfsögðu miðuð við þær forsendur sem við reiknum okkur fram með í dag. Við munum fá nýja þjóðhagsáætlun í vor, líklega í lok maí eða byrjun júní. Svo fáum við aftur þjóðhagsáætlun í haust og þá verður þetta allt saman reiknað upp á nýtt. Við erum í raun að taka þessa umræðu núna vitandi að ýmsar forsendur geta hreyfst eitthvað til.

Varðandi þingið sérstaklega hef ég ávallt lagt áherslu á að hlusta eftir ákalli frá þinginu. Ég kannast ekki við að mikil áhersla (Forseti hringir.) hafi verið lögð á þetta í samskiptum við þingið en það þarf að fara alveg sérstaklega varlega í samskiptum við þing, dómstóla og embætti forseta Íslands þegar kemur að framlagningu fjárlagafrumvarps.