146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:32]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi samanburðartölur sem eru birtar í þessari áætlun þá held ég að sá munur sem hv. þingmaður bendir á, borið saman við aðrar samanburðartölur, hljóti einfaldlega að liggja í forsendunum. Menn horfa á þetta frá ólíku sjónarhorni; eitthvað er tekið með, mögulega er leiðrétt fyrir öðru o.s.frv. Það þarf að skoða forsendurnar nákvæmlega. Þetta er tilraun til að gera samanburð þar sem hægt er að gera slíkan samanburð. Ég hef ávallt verið talsmaður þess að þessar tölur séu teknar með hæfilegum fyrirvara. Við hljótum að geta lagt fleira til grundvallar umræðunni um það hvernig við stöndum okkur í heilbrigðismálum en eingöngu hlutfallslega tölu af landsframleiðslu til málaflokksins. Við eigum til dæmis að spyrja okkur hvernig við förum með féð. Hvernig er staðan varðandi útkomuna í heilbrigðiskerfinu? Hver er staðan á biðlistum? Hversu lengi þarf að bíða eftir liðskiptaaðgerðum? Hvað þurfa hjartasjúklingar að bíða lengi eftir þeim lífsbjargandi aðgerðum sem þeir, margir hverjir, þurfa að gangast undir? Eða krabbameinssjúklingar? Hver er staðan í lyfjamálum? Þetta eru spurningarnar sem við eigum að velta upp og nota til samanburðar. Nú eru heimarnir líka að breytast töluvert mikið með því að við höfum opnað fyrir möguleika sjúklinga, sem ekki komast að á næstu þremur mánuðum í mikilvægar aðgerðir, til að leita út fyrir landsteinana á kostnað Sjúkratrygginga, (Gripið fram í.) til að fá lækningu. Mér finnst að við eigum að beina sjónum okkar meira að þessu.

Varðandi hlutföllin sé ég þau þannig að þegar uppbyggingarfasanum á Landspítalanum ljúki muni losna um töluvert mikið fjármagn sem við getum þá í auknum mæli beint inn í rekstrarlega og þjónustutengda þætti sem er mikið fagnaðarefni.