146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:37]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er hárrétt að þetta er eitt af stóru álitamálunum, hve mikið við brjótum málefnasviðin niður og hvernig samspil fjármálaáætlunar annars vegar og fjárlaga og fylgirits með fjárlögum hins vegar á að vera.

Varðandi fylgiritið og fjárlögin sáum við það í fyrsta skipti nú um áramótin að endurnýja þurfti útgáfu fylgiritsins í framhaldi af meðferð þingsins á fjárlögunum. Ágreiningur reis um hvort það hefði verið rétt gert og kallað var á samtal milli fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytis, og ég hef sérstaklega vísað til þess sem kom upp varðandi samgöngumál, hvort fylgiritið hefði verið rétt uppfært. En við erum aðeins að feta okkur eftir slóðinni í þessu. Það er í sjálfu sér engin formúla til til að reikna út hversu mikið við eigum að brjóta niður málefnasviðin, en hér er upplegg sem við erum að láta reyna á. Mér finnst það heilt yfir hafa tekist þokkalega. Við erum dálítið föst í að fella mál niður á ráðuneyti en erum samt með málaflokka sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti í þessari áætlun.

Varðandi markmiðin sem fram koma er það alveg rétt, og kom fram hér í umræðu milli mín og hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur áðan, að viðbótarfjármunir voru settir í að ráða starfsfólk, til að gera þessa stefnumótun og markmiðasetningu, í öll ráðuneyti. Við erum að reyna að vinna hér með mælanlega mælikvarða. Þar sem við setjum ekki sérstakar fjárhæðir á bak við yfirlýst markmið erum við, má segja, að gera ráð fyrir að því sem fyrir er verði forgangsraðað í þágu þeirra áherslna sem ráðuneytið kynnir hverju sinni.