146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:42]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að aðhaldskröfuna er oft erfitt að útfæra. En ég tel mikilvægt að hún sé þarna til staðar og við gerum ávallt ráð fyrir að leitað sé leiða í öllum ráðuneytum, öllum stofnunum, nefndum og ráðum sem við höldum úti, til að gera hlutina með hagkvæmari hætti. Það er margt sem blasir við manni þegar maður fer að skoða þessa hluti. Við höfum á undanförnum árum verið að vinna í bættum innkaupum. Við sjáum strax að þar er hægt að gera töluvert betur. Við erum bara rétt að hefja þá vegferð. Ég gæti nefnt húsnæðismálin. Það eru að verða miklar breytingar varðandi skrifstofurými. Við þekkjum það úr fjármálaráðuneytinu að þar fór ráðuneytið mun meira inn í opin rými og þar með er þörfin fyrir fermetra per starfsmann að dragast mikið saman. Hugmyndir um nýtt stjórnarráðshús sem myndi hýsa fleiri en eitt ráðuneyti og reikningar sem ég hef séð þar að lútandi sýna að við gætum búið og byggt upp aðstöðu og búið starfsmönnum Stjórnarráðsins mjög nútímalega og góða aðstöðu á mun færri fermetrum en á við í dag. Í sumum tilvikum eins og í forsætisráðuneytinu eru menn í mörgum húsum dreift yfir stórt svæði. Ég nefni húsnæðismálin sem einn þátt. Síðan er eins og í öllum öðrum rekstri ástæða til að velta fyrir sér hvar annars staðar, annaðhvort í mannahaldi eða með því að færa sig í aðkeypta þjónustu, megi nýta tæknina til að spara fjármuni og mögulega mannskap, þannig að þeir fjármunir sem við beinum inn í málaflokkana nýtist sem allra best í að tryggja gæði opinberrar þjónustu og samkeppnishæfni landsins.