146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:44]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það er ánægjulegt og gagnlegt að fá að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um nokkur málefni. Ég er með nokkrar spurningar. Ég vona að mér vinnist tími til að koma þeim öllum frá mér.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir orðrétt:

„Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.“

Ég leyfi mér að spyrja í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram hér um áætlunina að undanförnu: Hvernig í ósköpunum rímar það við þá fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir?

Telur ráðherra að þessi fimm ára fjármálaáætlun svari kalli 86 þúsund Íslendinga um hækkun framlaga til heilbrigðismála, sem hækka að vísu um prósentubrot en eingöngu lítið brot af því sem menn höfðu væntingar um?

Hagspá Hagstofu Íslands og reyndar fleiri greiningaraðila miðast við fast gengi á spátímabilinu. Seðlabankinn gerir hins vegar ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónunnar og á milli áranna 2016 og 2019 hafi gengisvísitalan lækkað verulega, eða úr 179,9 í 152,4. Ef spá Seðlabankans gengur eftir verður raungengið í sögulegu hámarki 2019. Er það ekki sjálfstætt umhugsunarefni? Hið háa gengi er mörgum áhyggjuefni. Opnar forsætisráðherra fyrir þann möguleika að farið verði að fitla handvirkt við gengið til lækkunar eða hafa áhrif á það með öðrum hætti? Og þá með hvaða hætti? Gengisbindingu eða annars konar inngripi?

Grænar skattar hafa verið boðaðir. Á hvaða breytingum öðrum í skattkerfinu byggist þessi áætlun? Hverjar eru tímasetningar í þessu sambandi?