146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Undir mennta- og menningarmálaráðuneytið heyra sex málefnasvið í fjármálaáætluninni. Ég ætla á eftir að hlaupa lítillega yfir fimm þeirra. Sjötta sviðið, sem er fjölmiðlar, tekur einungis til Ríkisútvarpsins. Þar er málið mjög einfalt, þar er einfaldlega gengið eftir því að nefskatturinn gangi eftir á ári hverju og starfsemi þess verði í svipuðu fari og verið hefur.

Varðandi heildarrammann í þessu gerir fjármálaáætlun ráð fyrir að útgjöld á árinu 2018 séu um 97,9 milljarðar kr. og í lok tímabilsins, árið 2022, verði þetta orðnir rétt tæpir 102 milljarðar kr. Að sjálfsögðu ber að hafa ákveðinn fyrirvara á áætluninni, hvort heldur það snertir þau málefnasvið sem heyra undir þann sem hér stendur eða áætlunina í heild. Forspárgildi áætlana fimm ár fram í tímann á sviði fjármála Íslendinga er í mínum huga afar takmarkað svo ekki sé meira sagt. Það ber að hafa þann fyrirvara á þegar við ræðum nákvæmni í áætlunum sem þessum.

Það er hins vegar alveg augljóst að árið 2018 er verið að bæta verulega í útgjöld á þessum málefnasviðum öllum.

Ég stikla á stóru í þessu. Ég byrja á málefnasviði 18 sem snýr að menningu, listum, íþróttum og æskulýðsmálum, sem má finna í greinargerð með frumvarpinu á bls. 249–258. Þar er meginmarkmiðið, undir því málefnasviði sem fram undan er og ber að vinna ötullega að, einfaldlega að efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Meðal aðgerða til að fylgja því eftir er að vinna og hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um notkun íslensku á öllum sviðum, byggja upp innviði íslenskrar máltækni í opnum aðgangi og fjölga máltækniverkefnum. Þessar áætlanir lúta að því að ganga til þessa verks í samstarfi við bæði fræðasamfélagið og atvinnulífið.

Málefnasvið 20 er framhaldsskólarnir sem eru á bls. 263–270 í greinargerðinni. Þar liggur fyrir að sú grundvallarbreyting hefur verið gerð á þessu skólastigi að það hefur verið stytt um eitt ár. Með sama hætti liggur fyrir að náttúruleg fjölgun er með þeim hætti að hún heldur ekki í við það sem menn vildu. Það fækkar af þeim sökum inni í framhaldsskólunum. Það er raunar mjög sérstakt að horfa á þær tölur sem þar er að sjá. Til dæmis á milli áranna 2017 og 2018 fækkar af þeim sökum um 800 nemendur í framhaldsskólunum eins og áætlanir gera ráð fyrir. Þar af eru rúmlega 620 nemendur á höfðuborgarsvæðinu einu.

Meginmarkmiðið, það stærsta, fyrir utan að ná tökum á þessari breytingu úr styttingu til stúdentsprófs, er að fjölga yngri nemendum í starfsnámi. Það er full þörf á að leggja mikla rækt við það verkefni.

Málefnasvið 7 er vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum. Þá er að finna á bls. 160–166 í greinargerðinni. Þetta verkefni heyrir núna undir mennta- og menningarmálaráðherra, var áður hjá forsætisráðuneytinu. Nú er unnið að stefnumótun fyrir árin 2017–2019 á því málefnasviði. Þarna liggja fyrir og hafa legið fyrir í dálítinn tíma verulega aukin framlög, hafa komið þarna inn. Málaflokkurinn er nátengdur háskólasamfélaginu sem er málefnasvið 21. Það er æskilegt og eðlilegt að fjalla um það í einhverju samhengi þótt ekki séu skýr skil þar á milli samt sem áður.

Málefnasvið 21 eru háskólarnir. Þá er að finna á bls. 271–279 í greinargerðinni. Stærst þar eru stofnkostnaðarverkefni sem er hús íslenskunnar eða Hús íslenskra fræða eins og við þekkjum það, sem hefur verið langþráð. Engu að síður liggur fyrir að rekstrarframlögin sem við höfum kallað eftir inn í háskólastigið vaxa ekki í samræmi við þær væntingar sem háskólastigið hefur sett fram. Það er því fram undan og liggur fyrir að endurskoða reiknilíkanið. Það verk er þegar á undirbúningsstigi með það að markmiði að efla gæði háskóla og rannsóknarstarfsemi í landinu.

Ég ætla að láta þetta nægja þar sem tíminn er forhlaupinn og geri ráð fyrir að geta komið fleiri þáttum að sem lúta að fjármálaáætluninni í (Forseti hringir.) andsvörum hér á eftir.