146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég deili sýn með hv. þingmanni á það með hvaða hætti við göngum til þess að reyna að styrkja starf háskólanna í landinu. Það kann að vera að okkur muni greina á einhvern hátt á um einstaka leiðir að því marki en þeir forsvarsmenn háskólastigsins sem ég hef átt viðræður við hafa ýtt verulega á eftir því að reiknilíkanið verði endurskoðað með það í huga að reyna að nálgast það á sambærilegan hátt og gerist í samkeppnislöndum okkar, ef við getum sagt sem svo. Ég bind mjög miklar vonir við að þetta verði unnt að gera í góðu samstarfi við háskólana.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um gagnvart framhaldsskólunum er alveg rétt að þegar lagt var upp með styttingu framhaldsskólans var miðað við að ábatinn af því, ekki hinn þjóðhagslegi því hann er gríðarlega mikill og kemur fram, inni í kerfinu héldist þar inni. Það er alveg ljóst miðað við þá áætlun sem hér liggur fyrir að við erum ekki að skila því öllu. En engu síður eru viðbætur inni í kerfinu. Raunvöxtur t.d. í áætluninni gerir ráð fyrir 3–6% inn í framhaldsskólastigið. En það sem ég vil líka segja og leyfi mér að segja er að þessi áætlun er unnin í mjög knöppu tímarúmi. Það er alveg augljóst. Hún ber þess eðlilega merki. Það er raunar afrek út af fyrir sig að þingið skuli vera komið með þetta í hendur fyrir 1. apríl.

Þetta plagg kemur til endurskoðunar á hverju einasta ári fram til ársins 2020, þó svo að það verði kosningar þá. Við í þessum sal munum að sjálfsögðu taka mið af þeim upplýsingum sem við eigum eftir að fá.

Ég nefni rétt í lokin að (Forseti hringir.) greiningin á framlögum til háskólastigsins, af því að hv. þingmaður spurði, kemur að sjálfsögðu upp þegar fjárlaganefndin og viðkomandi fagnefndir fara að vinna dýpra inn í þá áætlun sem liggur fyrir (Forseti hringir.) og stofnanir og ráðuneyti gefa upplýsingar um sundurliðun.