146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:07]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Herra forseti. Í fjárlögum hefur háskólunum verið úthlutað 29 milljörðum. Þar af hefur HÍ verið úthlutað 20 milljörðum til reksturs skólans. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir eins milljarðs hækkun sem mun alfarið fara til rannsóknarsjóðs innan Háskóla Íslands til að efla rannsóknarstarf skólans og er það vel. Það breytir þó ekki gífurlegri fjárþörf skólans til að halda uppi alhliða faglegu starfi.

Nú liggur fyrir að vegna gengistaps er skólinn í 500 milljarða halla eftir árið 2016 og skólanum er með öllu ómögulegt að halda áfram á loftinu einu saman. Afleiðingar þessa halla eru m.a. að skera þarf niður 50 námskeið við skólann næstkomandi vetur. Afleiðing þessa er sú að námsleiðir sem annars hefðu verið í boði verða ekki í boði komandi vetur. Það er með öllu óviðunandi.

Þörf er á 1.300 milljónum til viðbótar þannig að skólinn geti haldið áfram að sinna hlutverki sínu; að vera miðstöð fræða og framfara í íslensku samfélagi. Til þess að vera framúrskarandi skóli sem við getum með stolti kynnt á alþjóðavettvangi, líkt og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir reifaði fyrr í dag, þarf að bæta þarna í.

Á bls. 272 í tillögu ríkisstjórnar til þingsályktunar um fjármálaáætlun er fjallað um að nemendum í háskólum landsins hafi fækkað undanfarin ár og að heildarhlutfall þeirra sem stundi nám á meistarastigi sé 30%. Finnst hæstv. menntamálaráðherra það ásættanleg staða? Ég spyr einnig hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við því neyðarástandi sem ríkir í Háskóla Íslands núna? Þessi áætlun vinnur ekki verkið.