146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:12]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Við hæstv. ráðherra þurfum einfaldlega að vera ósammála um þetta, enda eru gögn sem sýna fram á að Háskóli Íslands stendur ekki vel í alþjóðasamanburði.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar er tíðrætt um skóla án aðgreiningar og hversu vel það gangi í skólum landsins. Jafnframt er gengið svo langt að fullyrða að menntakerfið í heild sé vel fjármagnað. Þvílík ósvífni að halda slíku fram með svo augljósan fjárskort innan grunnskóla um alla höfuðborgina og landið allt, býst ég við. Þetta er ekkert leyndarmál. Þetta vita foreldrar og almenningur um alla borg.

Í hvaða veruleika býr sú ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir slíkum fullyrðingum, að menntakerfið sé vel fjármagnað?

Hér virðist tölum snúið og hagrætt þannig að auðveldara sé fyrir ríkisstjórnina að segja slíka hluti. Reynsla mín af að sitja sem áheyrnarfulltrúi í skóla- og frístundaráði borgarinnar er sú að borgin gerir allt sem mögulegt er til að tryggja þjónustu en þegar kemur að skólum án aðgreiningar er það hreinlega ekki veruleikinn. Það vita foreldrar barna sem þurfa sértæk úrræði. Allir fá eitthvað en enginn fær nóg. Sveitarfélög bera vissulega ábyrgð á rekstri skóla en þau eru einnig beygð undir að vinna í lagaumhverfi sem hér er skapað og undir fjárlögum sem hér eru samþykkt, á Alþingi.

Það er galið að stöðugt sé bent á sveitarfélög þegar rekstur skóla er þungur og vinnuaðstæður nemenda óviðunandi. Sveitarfélögin gera eftir fremsta megni límonaði úr sítrónum.

Á bls. 282 í áætluninni kemur fram að til að bregðast við miklu brottfalli kennara á komandi árum hafi verið skipað samstarfsráð sem á að skila vinnu sinni árið 2018. Það kallast ekki að bregðast við á skjótan máta. Er það virkilega það besta sem menntamálaráðuneytið telur sig geta gert, að benda stanslaust á sveitarfélög og taka enga almennilega ábyrgð á ástandinu í grunnskólum landsins?