146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hún er þar á svipuðum nótum og ég ræddi og gat um áðan, að umræðan hefði legið í gær hjá talsmönnum flokkanna við 1. umr. um fjármálaáætlunina þar sem við deilum öll með rektorum háskólanna ákveðnum áhyggjum af því hvernig fjármögnunin er. Í þeim efnum hef ég ekki þreyst á að undirstrika að við leggjum að meðaltali inn í háskólastarfið svipað fjármagn og flest önnur OECD-ríki. En við gerum aðra þætti með allt öðrum hætti. Það kemur ágætlega hér fram að hvatarnir í því reiknilíkani sem við notum núna í háskólastiginu geta stuðlað að fjölmennu en einsleitu háskólastigi þar sem áhersla er á kennslu faga þar sem nemendafjöldi nær a.m.k. lágmarki til greiðslu fasts kostnaðar. Og svo kemur hér fullyrðing í úttekt sem gerð hefur verið á þeim efnum:

„Slík þróun samræmist illa gæðaáherslum í starfi háskóla eða langtímaþörfum samfélagsins fyrir háskólamenntað fólk sé miðað við að íslenskir háskólar mæti þörfinni í meira mæli en þeir gera nú.“

Í þessari setningu felst í rauninni verkefnið sem við Íslendingar þurfum að einhenda okkur í og gera meiri kröfur um gæði í íslenska skólakerfinu fremur en að stækka sýknt og heilagt námskeið til að geta tekið inn fleiri nemendur til að auka fjármunina sem renna inn í háskólana. Við þurfum einhvern veginn að vinna okkur að betri lausn í þessu. Það er mitt innlegg í svar við fyrirspurn hv. þingmanns. Ég tel mig vita í ljósi samtala sem ég hef átt við forsvarsmenn háskólanna að þar sé eindreginn vilji til að taka þessa þætti upp.