146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið við andsvarinu er: Já. Ég hef allan hug á að gera breytingar á þessu umhverfi sem menningarstarfinu er búið og skal viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég er ekki kominn langt í þeim hugsunum mínum. Ég er rétt að byrja að skoða þennan gróður allan. Fjöldi stjórna og sjóða miðað við umfangið er í mínum huga allt of mikið. Við þurfum að grisja þarna með einhverjum hætti, hvernig svo sem við gerum það. Það er mikil hætta á að þeim fjármunum sem eru settir í þetta, eins og gert er í dag, sé misjafnlega skipt og sumir séu jafnari en aðrir, svo að maður orði það einfaldlega bara þannig.

Samspilið milli sjóðakerfisins og hinna opinberu stofnana og menningarstyrkjanna er með þeim hætti að þar er nú þegar innbyggt ákveðið ójafnvægi milli þeirrar starfsemi sem nýtur styrkja samkvæmt sérstökum samningum eða í sjóðum gagnvart þeim stofnunum sem eru á föstum fjárlögum, bara að því er lýtur að breytingum á verðlagi eða launauppbót og öðru því um líku. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum einhvern veginn að jafna þennan mun. Megnið af menningarstarfsemi utan höfuðborgarsvæðisins er borið uppi af samningum eða styrkjum úr sjóðum sem njóta ekki verðlagsuppbóta eða launabóta. Þarna er innbyggður ákveðinn ójöfnuður og ég tel að við verðum að skoða hvernig við getum leiðrétt hann.