146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við erum að verða búin að vinna upp u.þ.b. klukkutíma frá því sem áætlað var að hér yrði byrjað að ræða við fagráðherra. Dagskráin hefur hliðrast þetta mikið til og ljóst að á því virðist ætla að verða framhald ef stjórnarliðar ætla ekki að taka meiri þátt í umræðunum en verið hefur.

Það var samið um þessa umræðu á ákveðnum grundvelli. Það var takmarkað sem þingmenn kæmust að úr stjórnarandstöðuflokkunum eins og stjórnarflokkunum. Það var sem sagt samið af okkur hinum að tala við fagráðherrana til að dagskráin gæti gengið hratt og örugglega fyrir sig. Nú virðast hins vegar stjórnarliðar ekki ætla að nýta sér að eiga samskipti og samtal við ráðherrana. Þá hljótum við annaðhvort að þurfa að leyfa fleirum úr stjórnarandstöðunni að tala eða taka okkur smáhlé og endurskipuleggja dagskrána því að a.m.k. fólkið mitt í Vinstri grænum er búið að undirbúa sig að koma á einhverjum tilteknum klukkutímum þegar dagskráin gerði ráð fyrir að ráðherrar yrðu til svara. (Forseti hringir.)

Ég spyr: Verður dagskránni hliðrað eitthvað fram eða getum við gengið út frá því að plönum verði haldið?