146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða þetta. Ég er svo hissa á því hvernig málum er fyrir komið á þessu nýja og breytta Alþingi góðra og bættra vinnubragða. Ég velti fyrir mér til hvers sumir stjórnarliðar séu í pólitík. Til hvers eru þeir að láta kjósa sig inn á þing ef þeir hafa ekki áhuga á að taka þátt í umræðum um fjármálastefnu næstu fimm ára? Til hvers er fólk þá að þessu yfir höfuð?

Ég sit í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Yfir þeim málaflokkum eru tveir fagráðherrar. Ég hef ekki færi á að ræða við þá báða af því að við sömdum um að einungis einn frá hverjum flokki fengi að eiga samtal við hvern ráðherra. Þetta gerðum við til að allir flokkar gætu átt samtöl við fagráðherrana. En núna kemur í ljós að sumir hv. þingmenn hafa bara engan áhuga á að ræða við ráðherrana (Forseti hringir.) um málin. Hvernig stendur þá á því að þeir gefa ekki okkur hinum, sem sannarlega höfum áhuga, rétt á að nýta það pláss?